Húsnæðis- og mannvirkjastofnun telur ólíklegt að íbúðaþörf ársins verði uppfyllt. Talið er að fullbúnar nýjar íbúðir verði 3.020 í lok árs 2024, en sveitarfélögin áætla að þörf verði fyrir að meðaltali 4.700 íbúðir á ári næstu fimm ár.
Þetta kemur fram á vef HMS. Húsnæðisáætlanir hjá 62 af 64 sveitarfélögum landsins hafa verið endurskoðar og staðfestar fyrir árið 2024. Húsnæðisáætlun Grindavíkur var ekki endurskoðuð vegna aðstæðna í bænum og Tálknafjörður hefur nú sameinast Vesturbyggð og mun sameinað sveitarfélag birta nýja áætlun fyrir árið 2025.
Íbúum fjölgi um tíu prósent á fimm ára fresti
Á myndinni hér að neðan má sjá mannfjöldaspá allra sveitarfélaga til ársins 2033. Samkvæmt miðspá sveitarfélaganna mun íbúum landsins fjölga um 10,8 prósent næstu fimm ár og 21,7 prósent næstu tíu ár. Til samanburðar þá hefur íbúum landsins fjölgað um 9,9 prósent síðastliðin fimm ár.
Fjörutíu og fimmþúsund íbúðir vanti á næstu tíu árum
Samkvæmt miðspá sveitarfélaganna er áætlað að fjölga þurfi íbúðum um 15,1 prósent á næstu fimm árum, sem gera um 4.700 íbúðir á ári. Frá 2029 til 2033 er talið að þörf verði fyrir að meðaltali 4.300 íbúðir á ári, færri en næstu fimm ár. Það skýrist af mati sveitarfélaganna á óuppfylltri íbúðaþörf sem þarf að vinna upp á næstu árum.
Í heildina er því áætluð þörf fyrir um 45.000 íbúðir á næstu tíu árum. Mest vantar af íbúðum á höfuðborgarsvæðinu þar sem þörf er á um 15.600 íbúðum næstu fimm árin. Utan höfuðborgarsvæðisins vantar flestar íbúðir á Suðurlandi þar sem þörf er á um 2.700 íbúðum á næstu fimm árum.
Sveitarfélögin áætla að úthluta lóðum fyrir 8.902 íbúðir árið 2024 þar sem 6.473 íbúðir eru í fjölbýlum, 1.423 í einbýlum og 1.423 í par- eða raðhúsum.
Um 46 prósent af þessum 8.902 voru nú þegar á lóðum sem eru byggingarhæfar, 2,5 prósent á byggingarhæfum lóðum í biðstöðu, 25 prósent á lóðum með samþykkt deiliskipulag og 27 prósent á þróunar- og framtíðarsvæðum.
Heimild: Visir.is