Loka þurfti skrifstofum Þingeyjarsveitar að Hlíðavegi 6 við Mývatn vegna myglu. Afgreiðsla Sparisjóðs Suður-Þingeyinga er í sama húsi en ekki hefur þurft að flytja þá starfsemi úr húsinu.
Rakaskemmdir fundust í húsnæði Þingeyjarsveitar við ástandsskoðun sem verkfræðistofan Efla gerði fyrir sveitarfélagið. Skoðunin leiddi í ljós að ráðast þarf í miklar aðgerðir til að bæta ástand hússins.
Hefur engin áhrif á starfsemi sveitarfélagsins
Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir, sveitarstjóri Þingeyjarsveitar, segir að starfsfólk sveitarfélagsins, sem haft hefur aðstöðu í húsinu, hafi flutt sig í Gíg þar sem fyrir er starfsstöð nokkurra fyrirtækja og stofnana. Þar verði vinnuaðstaða þeirra á meðan húsnæðið við Hlíðarveg er lokað.
Hún segir þetta tímabundna rask ekki hafa nein áhrif á starfsemi sveitarfélagsins.
Félagsstarf eldri borgara flutt í húsnæði Reykjahlíðarskóla
Auk Þingeyjarsveitar hefur félagsstarf eldri borgara haft aðstöðu í sama húsi. Ragnheiður Jóna segir þau hafa fengið inni í grunnskólanum og verði þar á meðan á meðan unnið er að úrbótum í húsinu.
Afgreiðsla Sparisjóðs Suður-Þingeyinga í sama húsi
Sparisjóður Suður-Þingeyinga er með hluta af sinni starfsemi að Hlíðarvegi 6, þar sem afgreiðsla er opin tvo daga í mánuði. Þó ekki í sama rými og skrifstofur Þingeyjarsveitar en Örn Arnar Óskarsson, sparisjóðsstjóri, segir að þetta séu tvær samliggjandi byggingar.
Úttekt Eflu hafi sýnt að loftgæði séu viðunandi í þeirra hluta hússins og því sé ekki nauðsynlegt að flytja starfsemina þaðan. Þau séu þó að hugsa málið og gætu þurft að finna sér annan stað tímabundið.
Heimild: Ruv.is