Home Í fréttum Framkvæmdir í gangi Mesta uppbygging í áratugi

Mesta uppbygging í áratugi

210
0
Framkvæmdir við Vesturvin á Héðinsreitnum eru í fullum gangi en þessi mynd var tekin í vikunni. Ljósmynd: Trausti Hafliðason

Nú er í gangi einhver mesta íbúðauppbygging í Vesturbænum í áratugi en um 400 íbúðir eru að koma inn á markaðinn.

<>

Í Vesturbænum er mikil uppbygging í gangi á Héðinsreitnum og Steindórsreitnum.

Á Héðinsreitnum er mikil íbúðabyggð að rísa. Tvö félög eru að byggja á reitnum. Fasteignarþróunarfélagið Festir er að byggja 210 íbúðir og sér Jáverk um framkvæmdirnar.

Félag í eigu nokkurra fjárfesta hefur einnig verið að byggja 102 íbúðir á reitnum og hefur Reir Verk séð um framkvæmdirnar fyrir þá.

Fyrra verkefnið er kallað Vesturvin og hið síðara Grandinn. Þegar hefur verið flutt inn í stóran hluta íbúðanna á Grandanum. Fyrstu íbúarnir í Vesturvin munu flytja inn í ágúst.

Á reitnum er einnig nýlegt hótel. Center hotels breytti gamla Loftkastalanum í hótel, sem heitir Grandi en þar er einnig veitingastaðurinn Héðinn Kitchen & bar.

Festir er í eigu hjónanna Ólafs Ólafssonar, aðaleiganda Samskipa og Ingibjargar Kristjánsdóttur. Félagið hefur m.a. komið að uppbyggingu fasteigna í Vogabyggð og sá um uppbyggingu Exeter hótelsins við Tryggvagötu.

Dýrasta íbúðin seld á 416 milljónir
Íbúðirnar sem Festir er að byggja eru frá 45 fermetrum upp í 278 fermetra. Er þetta allt frá stúdíóíbúðum upp í fjögurra til fimm herbergja íbúðir með þaksvölum, tveimur minni svölum og tveimur bílastæðum í bílakjallara.

Verðið er frá um það bil 50 milljónum króna en dýrasta íbúðin sem seld hefur verið á reitnum fór á 416 milljónir. Auk íbúðanna verða um 900 fermetrar af atvinnurými á svæðinu á völdum stöðum

Þorsteinn Ingi Garðarsson, verkefnastjóri hjá Festir, segir framkvæmdir á svæðinu hafi hafist árið 2021 og að langstærsti hluti íbúðanna 210 fari á almennan markað. Félagsbústaðir fái sjö íbúðir.

Íbúðirnar 210 eru í sex húsum. Þegar er búið að reisa þrjú og snúa þau út að Ánanaustum, með útsýni út á haf. Þessi þrjú hús eru sjö hæðir um 70% íbúðanna 210 verða í þeim.

Framkvæmdir við hin þrjú húsin hefjast um leið og lokið verður við stærri húsin. Er það gert til þess að verktakar hafi rými til að athafna sig á svæðinu. Þorsteinn segist vonast til þess að þær framkvæmdir hefjist sumarið 2025.

„Þetta eru mjög fjölbreyttar íbúðir,” segir Þorsteinn. „Meðalstærð íbúðanna er um 100 fermetrar plús geymsla. Við skárum okkur svolítið úr á markaðnum þegar við hófum í fyrra forsölu á íbúðum í tveimur húsum, sem verið er að byggja núna.

Þetta eru húsið á horninu á Ánanaustum og Mýrargötu og húsið við hliðina á því, sem stendur við Ánanaust. Fólkið sem keypti í forsölu hafði kost á að velja um frágang á íbúðunum.

Forsalan stóð í þrjá mánuði og við opnuðum ekki aftur fyrir sölu fyrr en í febrúar. Íbúðirnar sem fóru á sölu þá voru með almennum forsendum nema að þá hófum við líka forsölu á íbúðum í húsinu sem stendur á horni Ánanausta og Vesturgötu, en bygging þess er skemmra á veg komin en hinna tveggja.

Miklaborg og Eignamiðlun hafa séð um söluna fyrir okkur og hún hefur gengið mjög vel.”

Teikning af Vesturvin þegar svæðið verður fullbyggt.

Vin í Vesturbænum
Þorsteinn segir mikinn metnað hafa verið lagðan í umgjörðina á svæðinu og að fjárfest verði í glæsilegum garði, sem verði sólríkur og í skjóli á milli húsanna. Þar sé jafnframt gert ráð fyrir fjölskylduvænum veitingastað. Vesturvin dragi einmitt nafn sitt af þessum garði, sem verði vin í Vesturbænum.

Auk íbúðanna 310 sem Festir og Jáverk annars vegar og fjárfestahópurinn og Reir Verk hins vegar eru að byggja á Héðinsreitnum þá er verið að byggja 84 íbúðir á Steindórsreitnum svokallaða.

Samtals er því verið byggja tæplega 400 íbúðir á þessum tveimur lóðum. Þorsteinn segir ár og daga síðan jafnmikið hafi verið byggt í Vesturbænum og að uppbyggingin nú hafi verið löngu tímabær.

Heimild: Vb.is