Sveitarfélagið Árborgar ætlar sér stóra hluti þegar kemur að fráveitumálum en byggja á hreinsistöð, sem tekur allt skólp frá íbúum á Selfossi en í dag fer allt skólp óhreinsað í Ölfusá.
Það er ekki hægt að segja að ástandið í fráveitumálum í Árborg hafi verið til fyrirmyndar síðustu ár, ekki síst á Selfossi þar sem skólpið hefur farið algjörlega óhreinsað í Ölfusá, sem er reyndar vatnsmesta á landsins, og gerir enn. Íbúum fjölgar og fjölgar enda byggt og byggt en á sama tíma eru fráveitumálin í algjörum ólestri, en það stendur þó allt til bóta.
Sveinn Ægir Birgisson er formaður Eigna- og veitunefndar Árborgar.
„Heyrðu, við erum að framkvæma og byggja nýja hreinsistöð, sem mun taka allt skólp frá Selfossi. Við buðum hana út 2020 en fengum engin tilboð en hófum jarðvegsvinnu og henni er lokið og núna erum við búin að bjóða út uppsteypu og velja búnað til að hreinsa allt skólp sem kemur,” segir Sveinn Ægir.
Sveinn Ægir segir að nýja hreinsistöðin ætti að verði komin í notkun vorið 2026.
En hvers konar hreinsistöð verður þetta?
„Við byrjum á fyrsta þreps hreinsun og munum vera með fyrsta þreps hreinsun í eitt ár til að sjá í rauninni hvaða annars þrep búnað við munum þurfa að nota til að nýta hvað best hreinsun á skólpi frá Selfossi en svo munum við horfa fram á að fara í þriggja þrepa.”
Til útskýringar þá er fyrsta þreps hreinsun grófhreinsun á skólpi en með sérstökum þrepasíum í nýju hreinsistöðinni verður hreinsunin um 80 prósent með útrás í Ölfusá en þá er til dæmis átt við salernispappír og annað rusl. Tveggja þrepa hreinsun byggir alfarið á síun í stað líffræðilegs niðurbrots næringarefna, líka með útrás í Ölfusá og sé hreinsistöð þriggja þrepa má nánast drekka skólpið, hreinsunin hefur verið svo mikil og fín.
„Og þetta er náttúrulega stærsta umhverfisframkvæmd, sem sveitarfélagið hefur ráðist í núna á seinni árum. Þetta mun líklega kosta sex hundruð til átta hundruð milljónir króna gæti ég trúað, hreinsistöðin, sem sagt þessi fasi, sem við erum í dag,” segir Sveinn Ægir og bætir við í lokin.
Heimild: Visir.is