Hraun flæðir nú ofan í Melhólsnámu sem liggur við Hagafell norður af Grindavík.
Náman hefur verið notuð við uppbyggingu varnargarðanna á svæðinu. Hraunflæði ofan í námuna ætti þó ekki að hafa áhrif á áætlanir um hækkun varnargarða.
Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík, fylgist með stöðu mála á svæðinu og segir ekki margt annað til ráða en að bíða og sjá hvað verður. Alvarlegt sé að hraunið leiti mikið í átt að görðunum.
Hann hefur einnig fylgst með Melhólsnámu og segir að um sé að ræða gamla efnistökunámu sem átti að loka, en í ljósi þess að farið var í að byggja varnargarða á svæðinu var hún tekin í not að nýju.
Hún hefur því komið að góðum notum síðustu mánuði.
Hefur ekki áhrif á hækkun varnagarða
Ari Guðmundsson, verkfræðingur hjá Verkís, segir hraunflæði í námuna ekki hafa áhrif á þá hækkun á varnargörðunum sem verið er að ráðast í núna.
„Búið var að gera ráð fyrir því að ná í efni annars staðar frá, en þetta er mjög bagalegt að missa námuna því við höfum þurft á henni að halda í frekari framkvæmdir á svæðinu, vegagerðir og annað,“ segir Ari.
Þá bætir hann við að verið sé að sækja efni í hækkunina úr þeim rásum sem verktakar hafa myndað meðfram varnargörðunum. Vinna við hækkunina er ekki hafin.
„Það er ennþá verið að spýta upp efni og vinna í gerð vinnuvega til þess að geta byrjað hækkunina.“
Sú vinna mun halda áfram fram á nótt. Slæmt veður hefur verið á svæðinu en það ætti ekki að hafa áhrif á vinnu á svæðinu, segir Ari.
Heimild: Mbl.is