Viljayfirlýsing var samþykkt í borgarráði þar sem miðað er að því að reisa þyrlupall í Nauthólsvík fyrir björgunarþyrlu af stærstu gerð.
Reykjavíkurborg undirritaði viljayfirlýsingu um samstarf sem miðar að því að koma á laggirnar lendingarstað fyrir björgunarþyrlu af stærstu gerð, í Nauthólsvík.
Viljayfirlýsingin er á milli Reykjavíkurborgar, heilbrigðisráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis, innviðaráðuneytis, Landspítala, Landhelgisgæslu og stýrihóps um skipulag Landspítala um deiliskipulag annars áfanga uppbyggingar Landspítalans.
Sjálfstæðisflokkurinn sat hjá
Borgarráð samþykkti viljayfirlýsinguna en Sjálfstæðisflokkurinn sat hjá. Í yfirlýsingunni kom fram að markmiðið með þyrlupallinum væri að tryggja að til staðar verði í nálægð Landspítala lendingarstaður, þyrlupallur, með blindflugsbúnaði fyrir björgunarþyrlur af stærstu gerð til þess að valkostur verði til staðar við neyðarflutning á sjúklingum til Landspítala.
Mikilvægt að flutningstími sé sem stystur
Orðrétt segir að þar sem sjúklingar sem eru fluttir með björgunarþyrlu á Landspítala eru líklegir að vera alvarlega slasaðir eða mikið veikir, sé mikilvægt að flutningstími milli þyrlupalls og bráðamóttöku sé sem stystur.
Þyrlupallur skapar tækifæri
Þá segir ennfremur í viljayfirlýsingunni að með því að tryggja þyrlupall í Nauthólsvík skapist tækifæri til frekari þróunar á Hringbrautarsvæðinu við endurmat annars áfanga uppbyggingar á skipulagi Landspítala og þróun deiliskipulags Landspítalalóðar.
Gróður má ekki skyggja á
Á sama hátt mun deiliskipulagsgerð við Nauthólsvík tryggja að þyrlupallurinn sé hannaður í samræmi við þá þyrlustærð sem miðað er við á Norðurlöndum við björgun og leit.
Þá sé öryggissvæði við þyrlupallinn skv. alþjóðlegum reglum og að þyrlupallurinn sé þannig staðsettur að flug inn á hann sé sem hindrunarlausast og að framtíðarþróun bygginga og gróðurs auki ekki hindranir fyrir flug að og frá pallinum.
Þarf að geta tekið á móti tveimur þyrlum
Þrátt fyrir að neyðarflugslendingar séu árið 2023 um 60 talsins þarf að gera ráð fyrir að þeim fjölgi og að leyfðar séu lendingar á öllum tímum sólarhringsins.
Þar sem álag getur orðið mikið ef um hópslys er að ræða þarf pallurinn að geta tekið við tveimur þyrlum í einu og stærð hans yrði því miðuð við það, að því er fram kemur í yfirlýsingunni.
Heimild: Ruv.is