Ekki hefur enn náðst að koma skynjurum á mótum Kleppsmýrarvegar og Sæbrautar í gagnið. Samgöngustjóri vonast til þess að úr rætist á næstu dögum.
Starfsfólk Reykjavíkurborgar náði ekki að koma fyrir skynjurunum vegna umferðarljósa á gatnamótum Sæbrautar og Kleppsmýrarvegar um helgina eins og til stóð. Yfirborð vegarins var of blautt til að hægt væri að saga í veginn koma skynjara fyrir og loka aftur.
Þetta segir Guðbjörg Lilja Erlendsdóttir, samgöngustjóri Reykjavíkurborgar, í svari til fréttastofu, en þetta er síðasti skynjarinn sem átti eftir að koma í virkni á Sæbraut.
Miklar umferðartafir hafa verið á Sæbraut síðustu vikur og mánuði sem orsökuðust af því að skynjarar við umferðarljós voru óvirkir og græn ljós loguðu því of stutt á meginumferðarstrauminn.
Bílaraðir teygðu sig því allt frá Laugarnesi að Kleppsmýrarvegi þegar verst lét en ástæða tafanna var að nýr búnaður og stýrikerfi á ljósin voru komin upp en skynjararnir voru ekki tengdir.
Að jafnaði er um 40 þúsund bílum ekið um þennan vegakafla á sólarhring.
Guðbjörg sagði að tíðarfarið hafi sett strik í reikninginn þar sem mikið hafi verið um skemmdir á staurum og umferðarljósum um alla borg á stuttum tíma, bæði vegna bíla og snjóruðningstækja.
Mannskapurinn hafi því ekki haft undan því að gera við skemmdir og því hafi uppsetning á umferðarljósunum setið á hakanum.
Í síðustu viku náðist að koma öllum skynjurum á umferðarljósum í Sæbraut í virkni nema á gatnamótunum við Kleppsmýrarveg.
Það átti að klárast um síðastliðna helgi en náðist ekki, sem fyrr sagði.
Þess vegna ganga umferðarljósin þar enn eftir tímastillingu, óháð umferð.
„Stærstan hluta dagsins kemur það ekki að sök,“ segir Guðbjörg. „Það stendur til að gera aðra atlögu að því að koma skynjurum ofan í malbikið á næstunni. Ég þori samt ekki að lofa hvenær það verður þar sem það þarf að gerast utan mestu umferðarinnar. Það verður vonandi í vikunni eða um helgina.“
Aðspurð um hvort skynjarar séu bilaðir annarsstaðar í borginni segir Guðbjörg að unnið sé að því að tengja skynjara á gatnamótum Háaleitisbrautar og Bústaðavegar eftir endurnýjun umferðarljósabúnaðar þar. Áætlað er að ljúka því verki á næstu vikum, hugsanlega í þeirri næstu.
Þá séu nokkrir skynjarar óvirkir á Breiðholtsbraut, en varrahlutir séu komnir til landsins og þeim verði því skipt út þegar veður og mannskapur leyfir.
Heimild: Ruv.is