Tjón á fasteignum í austurhluta Grindavíkur hefur aukist til muna.
Þetta segir Hjálmar Hallgrímsson, formaður bæjarráðs Grindavíkur, í samtali við mbl.is.
Nýr sigdalur myndaðist samhliða eldgosinu sem hófst þann 14. janúar og hefur misgengið valdið frekara tjóni en áður hafði orðið.
Svignuðu og skemmdust meira
Hjálmar segir að iðnaðarhverfi í austurhluta bæjarins sé illa farið vegna sigdalsins. Einnig sést á íbúðarhúsnæði fólks í þessum hluta bæjarins.
„Hús svignuðu og skemmdust meira,“ segir Hjálmar.
Húsin miklu verr farin
Þann 10. nóvember myndaðist fyrsti og stærsti sigdalurinn í Grindavík sem olli töluverðu tjóni í bænum og þá ekki síst í austurhlutanum.
Hjálmar segir að tjónið hafi aukist til mikilla muna í kjölfar nýja sigdalsins.
„Það varð bara talsvert verra og það er bara mjög mikið tjón þar. Húsin eru ekkert alveg í rúst en það hefur sigið undan þeim, þau eru öll skökk og skæld. Malbik flagnar upp og það eru einhverjar sprungur undir húsunum og svona,“ segir Hjálmar og bætir við:
„Það jókst það mikið tjónið að húsin eru miklu verr farin heldur en þau voru eftir fyrsta viðburðinn.“
Fór í líflínu á heimilið sitt
Eins og mbl.is greindi frá í gær þá þurfti Grindvíkingurinn Rakel Lilja Halldórsdóttir að fara í líflínu inn á heimili sitt í gær til að fara í verðmætabjörgun.
Heimili Rakelar við Austurveg í Grindavík liggur á stóru sprungunni sem opnaðist í bænum þann 10. nóvember.
Í síðasta eldgosi gliðnaði sprungan enn meira og þegar Rakel heimsótti bæinn í dag til að sækja föggur sínar sá hún að tjónið væri gríðarlegt.
Heimild: Mbl.is