Í Grindavík eru tvö þriggja íbúða forsmíðuð raðhús (e. prefabricated modular buildings) sem hægt væri að taka niður og flytja á annan öruggari stað á jafnvel eins skömmum tíma og tveimur mánuðum. Byggingafélagið Laufás Bygg ehf. setti húsin niður í bænum fyrir um einu ári og hafa þau verið í útleigu.
Starfshópur um framboð á húsnæði fyrir Grindvíkinga til lengri tíma hefur kortlagt möguleika á lóðum fyrir uppbyggingu húsnæðis, einkum einingahúsa, í sveitarfélögum á suðvesturhorni landsins. Samkvæmt kortlagningunni er nóg til af lóðum undir slíka uppbyggingu.
Gerlegt en kostnaðarsamt
Hjálmar Vilhjálmsson, framkvæmdastjóri og aðaleigandi Laufáss Bygg, segir í samtali við Morgunblaðið að fyrirtækið vilji standa með Grindavík og því hvar Grindvíkingar sjái fyrir sér að búa í framtíðinni.
Hann segir þó að ef vilji verði til þess að taka einingahúsin niður sé það vel gerlegt og hægt verði að setja þau upp á öðrum stað á um tveimur mánuðum að því gefnu að jarðvinna geti hafist samhliða. Segir hann að slík framkvæmd verði kostnaðarsöm og eðlilegt sé að fyrirtækið beri þann kostnað ekki eitt og sér.
Þá segir Hjálmar teikningar af nýjum einingahúsum frá Laufási tilbúnar; bæði arkitekta-, verkfræðinga- og smíðateikningar. Þannig segir hann að hægt verði að líkindum að fá til landsins sex til átta þriggja íbúða raðhús innan sex mánaða.
„Þetta raðhús sem búið er að hanna er þrjár íbúðir en það breytir hönnuninni í sjálfu sér lítið að lengja það í til dæmis sex íbúðir.“
Hjálmar segir að Laufás Bygg eigi forbókaðan framleiðslutíma í verksmiðju í Eistlandi í mars, apríl og maí og á sama tíma eru teikningar til staðar sem hannaðar voru frá a til ö af reyndum íslenskum hönnuðum. Þess vegna væri hægt að afgreiða húsin á þessum skamma tíma án þess að gefa afslátt af gæðum og eftirliti með framkvæmd.
Gæðafrávik húsnæðis of mikil
„Laufás er ekki eina fyrirtækið á Íslandi sem sérhæfir sig í forsmíðuðum húsum. Óháð því hvort Laufás sé þátttakandi í því húsnæðisátaki sem nú er í umræðunni þá finnst mér skynsamlegt að skoða vandlega forsmíðuð einingahús sem hugsanlega lausn.
Það er ekki gott upplegg að fara í uppbyggingu á húsnæði á methraða vegna húsnæðisþarfar Grindvíkinga á sama tíma og það liggur fyrir að öryggi og gæði þess húsnæðis sem hefur verið framleitt á Íslandi síðustu misserin er að hluta til ófullnægjandi. Þá er ég ekki bara að tala um rakaskemmdir og myglu sem er allt of algeng hér á landi,“ segir Hjálmar.
Ef vilji er til að byggja hratt en á sama tíma hafa gæðin í lagi þá eru forsmíðuð einingahús skynsamlegur kostur að sögn Hjálmars og segir hann nokkur fyrirtæki á Íslandi bjóða upp á góðar lausnir í samstarfi við virta erlenda framleiðendur þar um, sem vinna samkvæmt rýndum og ströngum gæðaferlum.
Eftirlit of lítið á Íslandi
Hjálmar segir að í dag sé eftirlit byggingarfulltrúa of lítið og í raun aðallega bundið við lokaúttektir þegar svo til allri vinnu er lokið og erfitt að meta gæði vinnubragða. Nær öll ábyrgð sé sett á byggingarstjóra sem í sumum tilfellum sé verktakinn sjálfur.
„Það er aldrei gott upplegg að menn hafi eftirlit með sjálfum sér. Eftirlitið við bygginguna á Laufás-húsunum er meira af opinberum aðilum í Eistlandi en það var hér á landi. Ætlunin var að lækka kostnað við húsbyggingar með einfaldara regluverki.
Sú einföldun fólst í að leggja eftirlitið svo til niður. Niðurstaðan var miklu hærri heildarkostnaður þar sem mörg hús kalla á stórfelldar endurbætur aðeins nokkrum árum eftir að þau voru byggð. Sá mannafli og það fjármagn sem farið hefur í að gera við rakaskemmdir í nýlegu húsnæði síðastliðinn áratug eða svo hefði ekki þurft ef vandað hefði verið til verka í upphafi.
Ef allar þessar vinnustundir vegna viðgerða á svo til nýju húsnæði hefði ekki þurft og í staðinn verið nýttar í að byggja nýtt og öruggt húsnæði þá væri engin húsnæðisskortur á Íslandi. Það eru gríðarleg samfélagsleg verðmæti í að lágmarka galla við smíði á húsnæði og þar koma forsmíðuð einingahús mjög sterk inn. Í upphafi skal endinn skoða stendur einhvers staðar, og það eru orð að sönnu,“ segir Hjálmar.
Tjón óumflýjanlegt
Laufás Bygg getur ráðist í þá framkvæmd að flytja húsin úr Grindavík ef vilji verður til þess. Hjálmar segir óumflýjanlegt að fyrirtækið verði fyrir miklum kostnaði af slíkri framkvæmd. „Ef flutningur húsanna sparar öðrum tjón, eða dregur úr áhættu þeirra, er eðlilegt að menn deili slíkum björgunarkostnaði.“
Heimild: Mbl.is