Home Fréttir Í fréttum Milljarður á ári í uppbyggingu ferðamannastaða

Milljarður á ári í uppbyggingu ferðamannastaða

56
0
Rúman milljarð þarf árlega til uppbyggingar á ferðamannastöðum, í tengslum við ný lög sem samþykkt voru á Alþingi í vikunni. Þetta segir umhverfisráðherra sem ætlar að hefjast handa strax á mánudaginn.

Alþingi samþykkti í vikunni ný lög um gerð langtímaáætlunar um uppbyggingu á ferðamannasvæðum og þingsályktun um landskipulagsstefnu til ársins 2026. Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, mælti fyrir málunum í haust. Samkvæmt lögunum mun Sigrún setja af stað vinnu sem miðar að því að móta stefnu á ferðamannasvæðum. Það felur meðal annars í sér að forgangsraða verkefnum og ráðast í ýmsar framkvæmdir, svo sem að fyrirbyggja skemmdir, merkja leiðir og bæta hreinlætisaðstöðu.

<>

„Maður þarf ekki að hafa um það mörg orð, það vita það allir Íslendingar að það hefur orðið tvöföldun á ferðamönnum bara á þessu kjörtímabili, eða síðustu þrjú árin. Og það kemur við alla þætti sem við erum að kljást við á hverjum degi og ekki hvað síst í mínu ráðuneyti,“ segir Sigrún.

Hvað þýðir samþykkt þessa frumvarps fyrir uppbyggingu á ferðamannastöðum?

„Hún þýðir að það verður mun betri kortlagning. Við hefjumst handa strax á mánudaginn við að fá verkefnisstjóra eða starfsmann til þess að sinna þessu sérstaklega. Það hefur kannski skort þessa langtímasýn en Umhverfisstofnun hefur unnið mjög gott starf við að kortleggja staði sem hafa orðið fyrir miklu álagi. Rauð- og gulmerkja hvað við þurfum að gera varðandi það. “

En mun þetta frumvarp flýta því að byggt verði upp á ferðamannastöðum?

„Ég hef mikla trú á því að öll skipulagning sé af hinu góða. Að maður sjái aðeins fram í tímann. Það hefur verið gagnrýni á að það sé alltaf gripið í taumana þegar við stöndum frammi fyrir vandanum. Maður þarf að sjá vandann og kortleggja  hvað maður vilji byggja upp og gera. Og landskipulagsstefnan hjálpar líka til við það því inni í henni er um landnotkun og landnýtingu. Þannig að allt fellur þetta saman.“

Hvorki Byko né Las Vegas

Þetta miðar að uppbyggingu á ferðamannastöðum – er það ekki á borði iðnaðarráðherra?

„Auðvitað vinnum við þétt saman og sitjum saman í Stjórnstöð ferðamála. En nei, mér er falin náttúran og mér ber að huga að henni alla daga, sem ég tek mjög gjarnan að mér. Og það er okkar að leggja fram stefnu til varnar náttúrunni varðandi ágang. Hvort sem það er vegna ferðamanna eða sauðkindarinnar eða annars sem náttúran verður fyrir.“

Sigrún segir ljóst að þessi uppbygging kosti sitt.

„Gróflega áætlað teljum við að það sé ekki undir 1-1,2 milljörðum sem við þurfum á ári til þess að geta staðist þá áskorun sem þetta er.“

Samkvæmt lögunum er Sigrúnu gert að birta opinberlega áætlun um uppbygginguna innan sex mánaða.

„Við viljum hvorki Byko-væða landið né gera það að einhverju Vegas-svæði. Það verður að passa þetta allt saman, frá fjöru til fjalla,“ segir Sigrún.

Heimild: Rúv.is