Áætlaður kostnaður við byggingu endurvinnslustöðvar Sorpu á Lambhagavegi er 1,4 milljarðar króna, að því er segir í rekstraráætlun Sorpu fyrir árin 2024 til 2028. Framkvæmdirnar verða fjármagnaðar af eigendum Sorpu og ber Reykjavíkurborg 57% af kostnaðinum.
Endurvinnslustöðin verður opnuð á næsta ári og kemur í stað stöðvarinnar á Sævarhöfða.
Framlengja urðun í Álfsnesi
Fram kemur að urðun í Álfsnesi verði hætt árið 2024 en eigendur Sorpu höfðu gert samkomulag um að hætta urðun á svæðinu árið 2023. Ástæða framlengingarinnar er sögð vera erfiðleikar við að finna nýjan stað til að urða.
Þá verði 20 milljónum króna varið í að bæta loftræstikerfi gas- og jarðgerðarstöðvar Sorpu vegna galla á stöðinni. Eiga endurbæturnar að lágmarka loftmengun í vinnslunni.
Sorpbrennslustöð á 35 milljarða
Greint er frá því í rekstraráætluninni að stefnt er á byggingu sorpbrennslustöðvar á næstu árum. Jafnframt kemur fram að kostnaðurinn af slíkri fjárfestingu geti numið 25-35 milljörðum króna og að undirbúningur fyrir verkefnið sé þegar hafinn.
Búist er við því að rekstrartekjur árið 2024 nemi 6,9 milljörðum króna og fari hækkandi og nemi svo 7,6 milljörðum árið 2028. Búist er við að hagnaður á tímabilinu nemi á bilinu 427 milljónum til 557 milljónum króna. Sorpa reiknar með að launakostnaður fyrir næsta ár hækki um 15% en kjarasamningar losna í upphafi ársins.
Heimild: Mbl.is