Home Fréttir Í fréttum Varnargarðar tröllvaxið verkefni

Varnargarðar tröllvaxið verkefni

193
0
Tugir manna og véla eru að störfum við gerð varnargarða á Reykjanesskaga. RÚV – Skjáskot

Vinna er hafin við tvo varnargarða til að verja innviði á Reykjanesskaga. Búið er að hanna garð ef þarf til varnar Grindavíkurbæ. Ari Guðmundsson, sviðsstjóri hjá Verkís, segir verkefnið vera tröllvaxið.

<>

Framkvæmdir við varnargarðana hófust strax í gær þegar heimild lá fyrir. Ari sagði í viðtali við Samfélagið á Rás 1 í dag að hönnun þeirra byggi að miklu leyti á sviðsmyndum sem voru unnar af hópi Almannavarna um varnir mikilvægra innviða, í tengslum við gosin á Reykjaneskaga síðustu ár.

Framkvæmdir miðast við að koma sem fyrst upp grunnvarnarnlínu til að taka við fyrsta áhlaupi þegar og ef hraun fer að renna. Svo mætti hækka þá eftir atvikum.

Ari Guðmundssson

„Við gerðum ákveðnar tilraunir þar með uppsetningu á varnargörðum og fengum heilmikla reynslu. Við áttum kannski ekki von á því að vera svona fljótt komin í þetta ástand. Þó að gosið hafi verið í Fagradalsfjalli skoðuðum við ýmsar sviðsmyndir annars staðar og vorum þá að óttast það sem við erum að sjá núna.“

Tölvuteikning af görðunum í kringum orkuverið í Svartsengi og Bláa lónið

Garðarnir eru tveir. Annars vegar verður um fjögurra kílómetra garður í kringum orkuverið í Svartsengi og Bláa lónið og hins vegar eins og hálfs kílómetra garður nær Sundhnjúkagígaröðinni, ofan við Hagafell og Sýlingarfell.

Ari segir að garðarnir séu teiknaðir út frá hæðarpunktum í landslaginu, bæði svo að minna efni þurfi í garðana og eins til að framkvæmdin taki fyrr af.

Mikið lið er að störfum við garðana, 35-40 manns og 30-40 vélar.

Ari segir að gert sé ráð fyrir að garðarnir verði tilbúnir eftir um mánuð eða svo, en verkið er unnið eftir ákveðinni forgangsröð.

„Við viljum ná upp þessari grunnvarnarlínu þannig að ef við fáum hraunflæði á okkur þá muni það þola þetta fyrsta áhlaup, en ég geri ráð fyrir að hlémegin við garðana getum við haldið áfram að hækka þá eftir atvikum.“

Unnið væri á vöktum til að nýta allan þann tíma sem gefst.

„Því við höfum ekki mikinn tíma miðað við þær spár sem liggja fyrir. En auðvitað vonar maður að þetta lognist útaf. Það væri heillavænlegast.“

Búið að hanna garð fyrir Grindavík
En verður hægt að koma upp varnargarði við Grindavík ef þess þarf?

„Við höfum gert línur í varnargarð í kringum Grindavík, þannig að við eigum slíka hönnun til og það er meðal annars búið að setja út efsta hlutann af því ef við þurfum að bregðast við því. Þá værum við tilbúin með jarðýtur ef við höfum tíma til að bregðast við hraunrennsli þaðan.“

Heimild: Ruv.is