Rafmagn hefði ekki farið af Austurlandi í ísingarveðri í byrjun vikunnar ef áformað tengivirki í Skriðdal hefði verið komið í notkun. Fiskimjölsverksmiðjur þyrftu líka sjaldnar að brenna olíu vegna aflskorts og skoðar Landsnet að flýta framkvæmdinni.
Landsnet þurfti í gær að flytja rafmagn inn á Austurlandskerfið um stórlaskaða raflínu, svokallaða Fljótsdalslínu 2 sem flytur afl frá Kárahnjúkum. Ísing hafði hlaðist á línuna, brotið einangrunarskálar og leiðarar sigu. Nota þurfi línuna því ísing braut stæðu í Teigarhornslínu frá Djúpavogi upp á Hérað. Gert var við hana í fyrradag og var þá hægt að taka Fljótsdalslínu 2 úr notkun til viðgerða.
Um tíu tíma stopp á Vopnafirði
Fiskimjölsverksmiðjur á Austförðum fengu tilkynningu um orkuskerðingu vegna þessa en svo heppilega vildi til að fæstar voru í gangi. Rafmagnsleysi aðfaranótt þriðjudags olli hins vegar truflunum.
Fiskiðjuver Síldarvinnslunnar í Neskaupstað var stopp í tvo tíma. Í bræðslu Brims á Vopnafirði urðu bilanir vegna rafmagnstruflana og Sveinbjörn Sigmundsson, verksmiðjustjóri Brims á Vopnafirði segir að þetta hafi haft óvenju leiðinlegar afleiðingar enda hráefni í öllum vélum.
„Þetta festi tækin sem gerði það að verkum að við vorum tiltölulega lengi að koma þessu af stað. Það fóru út hjá okkur spennugjafar og eyðilögðust stýrilokar sem gerði það að verkum að við komum ekki rafskautskatlinum inn fyrr en eftir tíu tíma,“ segir Sveinbjörn.
Þessi vandræði má að stórum hluta rekja til þess hve veik Fljótsdalslína tvö er. Bæði stendur hún illa af sér ísingu og getur flutt lítið afl frá Kárahnjúkum inn á almenna raforkukerfið á Austurlandi.
Landsnet ætlar að bæta þá tengingu með nýju tengivirki í Skriðdal sem tæki meira Kárahnjúkaafl beint úr línunum sem liggja í álverið á Reyðarfirði. Framkvæmdir áttu að hefjast 2025 en Gnýr Guðmundsson forstöðumaður kerfisþróunar Landsnets segir nú skoðað að flýta framkvæmdinni.
Hefði komið í veg fyrir straumleysi
„Með því að byggja nýtt tengivirki í Skriðdal þá náum við að tengja Austurlandskerfið upp á 220 kílóvolta kerfið um línurnar sem liggja frá Fljótsdal og niður á Reyðarfjörð í álverið. Og þá hefði ekki orðið neitt straumleysi á Austurlandi í veðrinu núna.
Við höfum verið að skoða þessa framkvæmd meira til þess að auka aðgengi að orku á Austurlandi til að hægt sé að flytja meira afl inn á fiskimjölsverksmiðjurnar. En í ljósi þessara atburða þá munum við reyna að endurskoða hvenær við förum í þessa framkvæmd og reyna að flýta henni eins og hægt er,“ segir Gnýr Guðmundsson.
Heimild: Ruv.is