Home Fréttir Í fréttum Byggja timburhótel á Reynivöllum fyrir 4 milljarða

Byggja timburhótel á Reynivöllum fyrir 4 milljarða

355
0
Tölvumynd af nýja timburhótelinu sem er í byggingu á Reynivöllum. Aðsend mynd – Batteríið arkitektar

Á Reynivöllum skammt frá Jökulsárlóni er unnið að byggingu stórs glæsihótels sem kostar yfir 4 milljarða króna. Hótelið er nær alfarið úr timbri og byggingarstjórinn segir að með því að nota forsmíðaðar einingar sparist um hálft ár í framkvæmdatíma.

<>

Nýja hótelið sem rís á Reynivöllum er engin smásmíði en þar verða 120 herbergi, veitingastaður og allt tilheyrandi. Hótelinu er púslað saman úr hnausþykkum timburflekum sem voru fluttir til landsins með skipum. Þetta byggingarlag hefur ákveðna kosti.

Spara 5-7 mánuði í byggingartíma
„Þeir erum fjölmargir. Það er tímasparnaður á framkvæmdatíma. Þetta er mjög fljótreist. Kemur tilsniðið á byggingarstað og er klárt til uppsetningar. Þetta er umhverfisvænt. Þetta eru svansvottaðar einingar sem er byggt úr.

Samanborið við að húsið væri staðsteypt svona á hefðbundinn íslenskan máta þá reikna ég með að þetta spari 5-7 mánuði í verkefnatíma í heildina. Það eru aðeins botnplöturnar og lyftukjarnarnir sem eru steyptir og restin er úr timbri. Þetta er brunahannað eins og önnur hús og uppfyllir þær kröfur sem gerðar eru með bravör,“ segir Karl Sigfússon, byggingarstjóri hjá BEKA.

Jökulsárlón rétt hjá og jöklasýn frá hótelinu
Timbrið var líka valið til að gefa hótelinu hlýja áferð og yfirbragð. Það er Skúli Gunnar Sigfússon sem býr á Reynivöllum og á hótelið ásamt fjölskyldu sinni. Þau sjá tækifæri í að byggja upp á Reynivöllum sem eru næsti bær við Jökulsárlón og útsýni yfir jöklana í kring.

Baðherbergin hífð fullbúin inn í hótelið
Á hótelið þarf 60-70 starfsmenn og framkvæmdir við starfsmannahús skammt frá hótelinu eru að hefjast. Þegar við vorum á staðnum voru stórir kassar látnir síga niður í herbergin og forvitnilegt að vita hvað væri í kössunum.

„Þetta eru verksmiðjuframleidd baðherbergi sem koma frá fyrirtæki sem heitir Greenbox og er í Danmörku. Og koma fullbúin að innan að öllu leyti með flísalögn og speglum og handlaugum og öllu sem tilheyrir samkvæmt okkar hönnun eða hönnun verkkaupa.

Það er lagt upp með það frá upphafi verkefnisins að þetta sé hótel af háum gæðum. Það segir eitthvað að þetta eru kannski fjórar stjörnur plús,“ segir Karl.

Stefnt er að því að fyrstu gestirnir skrái sig inn til gistingar næsta sumar.

Heimild: Ruv.is