Að ýmsu þarf að huga við undirbúning og framkvæmdir við nýja Fossvogsbrú. Meðal þess sem taka þarf tillit til við hönnun brúarinnar eru hljóðáhrif af völdum vinds sem geta haft áhrif á líf fólks í nágrenni brúarinnar.
Hætt er við að klæðning geti valdi flautuáhrifum í ákveðnum vindáttum ef vindur er mikill. Með öðrum orðum, að brúin flauti. Þetta kemur fram í bókun heilbrigðisnefndar Garðabæjar, Hafnarfjarðar, Kópavogs, Mosfellsbæjar og Seltjarnarness frá 3. október vegna tillögu að breytingu á deiliskipulagi vegna brúarinnar.
Staðbundin mengun á svæðinu
„Miðað við núverandi deiliskipulag um leyfilega umferð á brú er ólíklegt að hljóðvist frá umferð verði vandamál í nærliggjandi byggð. Við deilihönnun brúar þarf þó að huga að mögulegum hljóðáhrifum af brú vegna vinds sem blæs í gegnum hana. Þekkt er að klæðningar á brúm geta valdið flautuáhrifum í ákveðnum vindáttum við ákveðinn vindstyrk,“ segir í bókun nefndarinnar.
Fleira þarf að hafa í huga við þessa stóru framkvæmd, að mati nefndarinnar. „Heilbrigðisnefnd vekur athygli á að það hefur orðið vart við staðbundna mengun á uppfyllingu á skipulagssvæði brúar yfir Fossvog.
HEF vill leggja áherslu á að við uppgröft á svæðinu skal fjarlægja malbik og annað sýnilegt rusl og sorp sem kemur upp og farga því á viðeigandi hátt og gera grein fyrir því gagnvart heilbrigðiseftirliti. Gera þarf heilbrigðiseftirliti viðvart ef komið er niður á slíkt efni við uppgröftinn.“
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.
Heimild: Mbl.is