Home Fréttir Í fréttum Aðeins búið að klára þrjár af níu stórum framkvæmdum sem átti að...

Aðeins búið að klára þrjár af níu stórum framkvæmdum sem átti að vera lokið

236
0
RÚV samsett – Sigurður Kristján Þórisson

Engar framkvæmdir beintengdar Borgarlínu eru hafnar og framkvæmdir á stofnvegum samkvæmt samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins eru skammt á veg komnar. Fjármála- og efnahagsráðherra segir mikilvægt að áfangaskipta framkvæmdum.

<>

Framkvæmdir vegna samgöngusáttmála sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og ríkisstjórnarinnar skiptast í fernt; stofnvegi, Borgarlínu, virka ferðamáta og umferðarstýringu. Langdýrustu framkvæmdirnar eru í kringum stofnvegi og Borgarlínu.

Samkvæmt upphaflegri áætlun átti níu framkvæmdum að vera lokið á þessu ári. Aðeins þremur þeirra er lokið.

Meðal framkvæmda sem ekki eru hafnar en ætti að vera lokið eru gatnamót Reykjanesbrautar og Bústaðavegarog Sæbrautarstokkur á milli Vesturlandsvegar og Holtavegar.

Hvernig standa framkvæmdir á stofnvegum?

Ellefu framkvæmdir á að gera á stofnvegum á höfuðborgarsvæðinu samkvæmt samgöngusáttmálanum. Byrjað er að vinna að frumdrögum þeirra, svo hönnun og loks framkvæmd. Staðan á verkefnunum er þessi:

  • Vesturlandsvegur
    • Breikkun úr 2+1 akreinum í 2+2 akreinar á um 1,1 kílómetra kafla – Framkvæmd lokið.
  • Reykjanesbraut: Kaldárselsvegur – Krísuvíkurvegur
    • Aðskilnaður akstursstefna á 3,2 kílómetra kafla með tveimur akreinum í hvora átt. – Framkvæmd lokið.
  • Suðurlandsvegur: Bæjarháls – Vesturlandsvegur
    • Breikkun í fjórar akreinar á um eins kílómetra kafla. – Framkvæmd lokið.
  • Suðurlandsvegur: Norðlingavað – Bæjarháls
    • Breikkun í fjórar akreinar og aðskilnaður akstursstefna. – Frumdrögum lokið, gert ráð fyrir að hönnun ljúki á öðrum ársfjórðungi 2024.
  • Reykjanesbraut: Gatnamót við Bústaðaveg
    • Mislæg gatnamót – Gert ráð fyrir að frumdrög yrðu klár á öðrum ársfjórðungi 2023.
  • Arnarnesvegur – Breiðholtsbraut
    • Framlenging Arnarnesvegar að Breiðholtsbraut. – Framkvæmdir hófust í ágúst 2023.
  • Sæbrautarstokkur
    • Stokkur – Frumdrögum lokið og gert ráð fyrir að hönnun verði klár fyrir árslok 2024.
  • Miklabrautarstokkur
    • Stokkur – Gert ráð fyrir að frumdrög væru klár á öðrum ársfjórðungi 2023.
  • Reykjanesbraut: Álftanesvegur – Lækjargata
    • Frumhönnun lausna með tveimur akreinum í hvora átt með miðdeili og mislægum gatnamótum við Lækjargötu og Álftanesveg eða stokki við Kaplakrika. – Gert ráð fyrir að frumdrög væru klár á öðrum ársfjórðungi 2023.
  • Garðabæjarstokkur
    • Hafnarfjarðarvegur settur í stokk. – Gert ráð fyrir að vinna við frumdrög hefjist á þriðja ársfjórðungi 2024.
  • Undirgöng á Reykjanesbraut í Kópavogi
    • Undirgöng. – Framkvæmd lokið.
Kort af framkvæmdasvæðum stofnvega í samgöngusáttmála

Framkvæmdir tengdar Borgarlínu eru áætlaðar í sex lotum, og á þeirri fyrstu að ljúka árið 2027 samkvæmt núverandi áætlun. Engar framkvæmdir í tengslum við þessar lotur eru hafnar, en í framkvæmdum tengdum nýju hverfi við Hlíðarenda í Reykjavík og við nýja Landspítalann er gert ráð fyrir akstri Borgarlínu. Stefnt er að því að framkvæmd við Fossvogsbrú hefjist á þessu ári

Í svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins 2040 er unnið út frá því að tveir af hverjum þremur íbúum þess hafi aðgengi að góðum almenningssamgöngum, Borgarlínu.

Búið er að leggja um 13 kílómetra af hjólreiðastígum í tengslum við samgöngusáttmála.

Hverfa ekkert þrátt fyrir vanáætlun

Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra segir útilokað að hafa væntingar um að hægt sé að ljúka öllum verkefnum samgöngusáttmála innan tímarammans sem lagt var upp með.

„Við erum hérna að fjalla um mikilvægar samgöngubætur á höfuðborgarsvæðinu, sem hverfa ekkert þó það hafi verið vanáætlað á sínum tíma,“ sagði Bjarni eftir fund um samgöngusáttmálann á höfuðborgarsvæðinu í Valhöll í gær. Hann sagði fyrr í mánuðinum að fjármögnun hafi verið vanáætluð um nærri 140 milljarða króna.

Fjármögnun með umferðargjöldum

Við fjármögnun samgöngusáttmála er gert ráð fyrir að Betri samgöngur fjármagni um helming heildarfjárfestingar hans með flýti- og umferðargjöldum, verði það ákveðið með lögum. Á vef Betri samgangna segir að þessi gjaldtaka verðir fyrir akstur á milli skilgreindra svæða. Gjöldin byggja á sams konar aðferðarfræði og í stærri borgum Noregs og í Gautaborg og Stokkhólmi í Svíþjóð. Ekki er búið að ákveða hvar þessi gjaldtaka yrði.

Verður að teygja tímalínu

„Í mínum huga þarf að fara að áfangaskipta þessu. Við þurfum að komast aðeins frá því að tala um, eða jafnvel rífast um hluti sem eru ekki á dagskrá næsta áratuginn, og fara að beina sjónum okkar að því sem getur gerst í nærtímanum,“ sagði hann. Líta verði til þess hvað eigi að gera til næstu fimm eða tíu ára og hvað verður síðan að bíða.

„Það er alveg útilokað annað en að það þurfi að teygja tímalínu í þessu máli og það verður að forgangsraða upp á nýtt.“

Bjarni segir þær stofnvegaframkvæmdir sem settar voru á blað 2019 mikilvægar, og sömuleiðis sé mikilvægt að byggja upp skilvirkar almenningssamgöngur. Ríkið sé hins vegar ekki að fara að bæta við 140 milljörðum ofan á samgöngusáttmálann og taka reksturinn á almenningssamgöngum ofan á það. Nú sé mikilvægast að forgangsraða verkefnum.

Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, sagði í dag að Bjarni setti samgöngusáttmálann í uppnám með málflutningi sínum.

Heimild: Ruv.is