Home Fréttir Í fréttum Skálholtsdómkirkja í toppstandi eftir allsherjar yfirhalningu

Skálholtsdómkirkja í toppstandi eftir allsherjar yfirhalningu

194
0
Kristján Björnsson, vígslubiskup í Skálholti. Skálholt – Sigrún Þuríður Runólfsdóttir

Skálholtskirkja er orðin eins og ný eftir lagfæringar. Litlu munaði að helstu verðmæti kirkjunnar eyðilegðust í leka fyrir 3 árum. Vígslubiskup segir að hún hafi aldrei verið í betra standi.

<>

Skálholtskirkja er í toppstandi segir vígslubiskupinn í Skálholti. Kirkjan var orðin hálfgerð hryggðarmynd eftir alvarlegan leka fyrir þremur árum, og menningarverðmæti lágu undir skemmdum. Nú er hún orðin eins og ný.

Það var heldur dapurlegt um að litast í Skálholtskirkju fyrir þremur árum. Þakið var orðið illa farið og í janúar kom upp mikill leki þar sem minnstu munaði að verðmætt bókasafn yrði fyrir vatnstjóni. Bókasafnið var í eigu Þorsteins Þorsteinssonar sýslumanns og var geymt í turni kirkjunnar. Kristjáni Björnssyni, vígslubiskupi í Skálholti, varð mjög brugðið.

Skálholtsdómkirkja var vígð 22. júlí 1963 og er því 60 ára gömul.
Skálholt – Sigrún Þuríður Runólfsdóttir

„Það fossaði niður vatnið af klukknaportinu og niður á bókasafnið og í kirkjuna og þegar verst var þá var kistulagning og klukkutíma hlé eða einn og hálfur tími á milli kistulagningar og útfarar og ég var þarna með fægiskóflu að moka upp vatni af gólfinu.“

Var það í starfslýsingunni hjá þér að moka vatni með fægiskóflu?

„Nei heldur ekki að moka snjó,“ segir Kristján og hlær.

Kirkjuklukkurnar í Skálholti voru lagaðar og þessi gripur bættist við klukknarkórinn, smíðaður í Danmörku.
Skálholt – Sigrún Þuríður Runólfsdóttir

Framkvæmdir hafa gegnið vonum framar.

Og var allt lagað sem þörf var á?

„Já eiginlega meira. Það var bara þannig að við ætluðum að fara að mála kirkjuna að innan og þá var ákveðið að skipta um allar lagnir, bæði rafmagnslagnir og hitalagnir og hún var bara alveg tekin í nefið,“ segir Kristján.

Skálholtskirkja er einstaklega falleg og geymir merk kirkjulistaverk.
Skálholt – Sigrún Þuríður Runólfsdóttir

Einnig var gert við ytra byrði kirkjunnar, þakið og klukkurnar. Orgelið var hreinsað, skipt um dren og eldingarvari settur upp ásamt nýjum gluggum.

Listgler Gerðar Helgadóttur var lagfært í viðgerðunum.
Skálholt – Sigrún Þuríður Runólfsdóttir

Skálholt státar af einhverjum fegurstu kirkjulistaverkum þjóðarinnar. Þau lágu undir skemmdum, en nú er allt annað að sjá þau. Listgler Gerðar Helgadóttur var lagfært og hver steinn í altarismynd Nínu Tryggvadóttur fægður upp á nýtt.

Hver steinn í altarismynd Nínu Tryggvadóttur var fægður upp á nýtt.
Skálholt – Sigrún Þuríður Runólfsdóttir

„Skálholt er miklu meira heldur en bara kirkjustaður, það er svo mikil saga hérna og það er einhvernvegin þannig líka að það eiga svo margir taugar hingað þó þeir vilji ekkert með kristna trú gera einu sinni,“ segir Kristján.

Heimild: Ruv.is