Á undanförnum árum hefur íbúðum fjölgað í hverfum í grennd við Hlemm. Eldri verksmiðjubyggingar hafa vikið fyrir nýjum fjölbýlishúsum og einnig hefur verksmiðju- og skrifstofubyggingum verið breytt í íbúðir. Nú eru uppi áform um að breyta enn einu skrifstofuhúsinu í íbúðir, þ.e. Rauðarárstíg 27.
Eigandi hússins sendi erindi til byggingafulltrúa Reykjavíkur þar sem sótt er um leyfi til að breyta notkun atvinnuhúsnæðis á 2.-4. hæð, fjölga fasteignum og innrétta íbúðir, sex á hverri hæð, alls 18 íbúðir, ásamt hjóla- og vagnaskýli á lóð til austurs við hús á lóð nr. 27 við Rauðarárstíg.
Þetta er rauðbrúnt hús sem margir kannast við. Ríkið hefur haft skrifstofuhúsnæðið á leigu á undanförnum árum. Þar hefur utanríkisráðuneytið verið með starfsemi, þar á meðal þýðingarmiðstöð ráðuneytisins. Aðalskrifstofur ráðuneytisins eru í næsta húsi við hliðina, Rauðarárstíg 25.
Ráðuneytið að flytja
En nú stendur fyrir dyrum að flytja ráðuneytið í svokallað norðurhús nýbyggingar Landsbankans í miðbænum. Því opnast tækifæri til að breyta Rauðarárstíg 27 í íbúðir. Á árum áður, frá 1987 til 2014, var vinsæll ítalskur veitingastaður á 1. hæðinni, Madonna, en nú er þar kokteilskóli.
Byggingafulltrúinn sendi erindið til skipulagsfulltrúa og óskaði umsagnar um það. Í umsögn verkefnastjóra skipulagsfulltrúa kemur fram að húsið á lóð nr. 27-29 við Rauðarárstíg er veitinga- og skrifstofuhúsnæði á fjórum hæðum, byggt árið 1987.
Samkvæmt aðalskipulagi Reykjavíkur tilheyrir húsið skilgreindu miðborgarsvæði M1b, blönduð miðborgarbyggð – skrifstofur og þjónusta. Á því svæði er markmiðið að efla fjölbreytta atvinnu- og þjónustustarfsemi sem fellur að íbúðarbyggð. Þar er gert ráð fyrir stofnunum, skrifstofum og sérhæfðri þjónustu, þ.m.t. gistiþjónustu. Íbúðir eru heimilar, einkum á efri hæðum húsnæðis. Við jarðhæðir með götuhliðastýringu er verslunar- og þjónustustarfsemi opin almenningi í forgangi. Almennar veitingaheimildir miðsvæða gilda.
Ekkert deiliskipulag er í gildi um reitinn. Því þarf að grenndarkynna allar byggingarleyfisumsóknir.
Verkefnastjóri bendir á að samkvæmt umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 4. nóvember 2021, var ekki lagst gegn því að efri hæðum yrði breytt í íbúðir og jákvætt var tekið í breytingar á bílastæði fyrir framan hús sem myndi gera mögulegt að setja svalir á þá hlið hússins fyrir íbúðirnar.
Neikvætt var tekið í að hækka það um eina inndregna hæð og að breyta jarðhæð hússins í íbúðir. Einnig var mælt með að nota aðra lausn en svalagang sem inngang í íbúðir.
Endurhanna þarf lóðina
Skilað hafi verið inn teikningum sem uppfylla þau skilyrði sem beðið er um í fyrrnefndri umsögn. Við lóðahönnun hafa hins vegar ekki verið gerðar ráðstafanir sem taka tillit til breyttrar notkunar hússins. Þar sem húsið verður íbúðarhúsnæði þarf að gera ráðstafanir á lóð til að tryggja gæði nærumhverfis, sbr. aðalskipulag.
Þar segir meðal annars að þegar byggt er íbúðarhúsnæði innan blandaðra atvinnuhverfa þurfi að huga sérstaklega að umhverfisgæðum við hönnun húsnæðis og lóðar. Endurhanna þarf lóðina þar sem gert er ráð fyrir dvalarsvæði fyrir íbúa með gróðri og blágrænum ofanvatnslausnum til að gera umhverfið aðlaðandi til búsetu.
Samkvæmt fasteignamatsskrá er Rauðarárstígur 1.655 fermetrar að stærð og fasteignamat ársins 2024 658 milljónir króna.
Heimild: Mbl.is