Home Fréttir Í fréttum Auð­velt að fjár­magna milljarða leik­vang í Kópa­vogs­dal

Auð­velt að fjár­magna milljarða leik­vang í Kópa­vogs­dal

198
0
Albert Þór Jónsson og Torsvöllur í Færeyjum sem hann nefnir sem dæmi. Ljósmynd: Samsett

Stjórnar­maður í Al­menna líf­eyris­sjóðnum sér leik á borði fyrir líf­eyris­sjóði og er­lenda fjár­festa til að fjár­magna al­þjóð­legan knatt­spyrnu­leik­vang í Kópa­vogs­dal.

<>

Albert Þór Jóns­son, sjálfstætt starfandi fjárfestingarráðgjafi og stjórnar­maður í Al­menna líf­eyris­sjóðnum, segir mikil­vægt að taka stefnu­mótandi á­kvarðanir um að hefja fram­kvæmdir á nýjum al­þjóð­legum knatt­spyrnu­leik­vangi sem fyrst.

Að hans mati er ekkert því til fyrir­stöðu að al­þjóð­legur knatt­spyrnu­leik­vangur rísi í Kópa­vogs­dal með að­komu líf­eyris­sjóða og er­lendra fjár­festa. Hann segir tæki­færin og tekju­mögu­leikarnir ó­endan­legir ef stefna og fram­tíðar­sýn er skýr í ís­lenskri knatt­spyrnu.

„Inn­viða­fjár­festingar eru mikil­vægar og auka þær sam­keppnis­hæfni og styðja við hag­vöxt með meiri fram­leiðni og fjölgun at­vinnu­tæki­færa. Þess utan styðja þær við lífs­kjör og lífs­gæði til fram­tíðar,” skrifar Albert í Morgun­blaðið í dag.

Kostnaður um 5 til 7 milljarðar

Að hans mati er upp­lagt að ráðast sem allra fyrst í að byggja nýjan al­þjóð­legan knatt­spyrnu­leik­vang sem upp­fyllir allar ströngustu kröfur UEFA um lýsingu og að­búnað til að spila lands­leiki, Evrópu­leiki og leiki í Meistara­deild Evrópu.

„Góðar hug­myndir hafa komið fram í því sam­hengi og þar á meðal hug­myndin um að slíkur leik­vangur rísi í Kópa­vogs­dal. Al­þjóð­legur knatt­spyrnu­leik­vangur yrði hannaður af fremstu arki­tektum landsins og tæki enn fremur mið af sjálf­bærni, endur­nýjan­legri orku og heitu vatni. Ekki er ó­lík­legt að kostnaður við fram­kvæmdina liggi á bilinu 5-7 milljarðar króna,“ skrifar Albert.

„Auð­velt er að fjár­magna slíkar inn­viða­fjár­festingar með grænni fjár­mögnun sem bæði líf­eyris­sjóðir og er­lendir fjár­festar væru á­huga­samir um. Mikil­vægt er að taka stefnu­mótandi á­kvarðanir um að hefja fram­kvæmdir á nýjum al­þjóð­legum knatt­spyrnu­leik­vangi fyrir knatt­spyrnu sem fyrst. Frændur okkar í Fær­eyjum hafa nú þegar lokið við gerð al­þjóð­legs knatt­spyrnu­leik­vangs. Nú þarf að hefjast handa og hugsa stórt fyrir Ís­land til lengri tíma í þessu mikil­væga máli.“

Torsvöllur, þjóðarleikvangur Færeyja tekur um 6000 manns í sæti.
© epa (epa)

„Fjár­festingar­fyrir­tæki reisti Parken“

Albert bendir á að al­þjóð­legur knatt­spyrnu­leik­vangur sé arð­söm fjár­festing fyrir alla Ís­lendinga.

„Fjár­festingar­fyrir­tæki reisti Parken í Kaup­manna­höfn 1990 með á­byrgð danska knatt­spyrnu­sam­bandsins um að lands­liðið spilaði alla lands­leiki næstu 15 árin á leik­vanginum. Knatt­spyrnu­liðið FC Kaup­manna­höfn keypti síðan Parken 1998 og á nú Parken og skrif­stofu­byggingar í kring. Þetta gæti verið við­skipta­módelið fyrir Breiða­blik, að reisa al­þjóð­legan knatt­spyrnu­leik­vang í grænu miðjunni í Kópa­vogs­dal.“

Albert rifjar upp gengi kvenna­liðs Breiða­bliks árið 2021 en liðið varð fyrst ís­lenskra knatt­spyrnu­fé­laga til að taka þátt í riðla­keppni Meistara­deildar Evrópu. Spilaði kvenna­liðið við lið eins og Real Madrid og PSG.

„Tekjur vegna þátt­töku liðsins voru um­tals­verðar. Þátt­taka ís­lenskra liða í Evrópu­keppnum getur numið um­tals­verðum upp­hæðum ef árangurinn er góður en nú ný­verið hefur komið fram að karla­lið Breiða­bliks hefur tryggt sér um­tals­verða fjár­muni með góðum árangri í Evrópu­keppni,“ skrifar Albert.

„Mikil­vægur þáttur í þátt­töku liða í slíkum keppnum er að hafa nauð­syn­lega inn­viði eins og al­þjóð­legan knatt­spyrnu­leik­vang og um­gjörð eins og flest önnur lönd sem hafa metnað til að ná árangri til lengri tíma. Fá­mennari þjóðir en Ís­lendingar hafa margar tölu­vert betri inn­viði til þátt­töku í Evrópu­keppnum en Ís­land og þar eru frændur okkar í Fær­eyjum með tölu­vert for­skot enda hefur upp­gangur í knatt­spyrnu í Fær­eyjum verið ævin­týra­legur á undan­förnum árum og hafa góðir inn­viðir leikið stórt hlut­verk.“

„Nú þarf að bretta upp ermar og láta verkin tala. Tæki­færi og tekju­mögu­leikar eru ó­endan­leg ef stefna og fram­tíðar­sýn er skýr í ís­lenskri knatt­spyrnu. Nú þarf að setja af stað metnaðar­fulla á­ætlun um inn­viða­upp­byggingu á al­þjóð­legum skala fyrir Ís­land og koma okkur í fremstu röð,“ skrifar Albert að lokum.

Heimild: Vb.is