Skúli Gunnar Sigfússon, oft kenndur við Subway, hyggst byggja verslunarmiðstöð á Höfn í Hornafirði.
Skúli hefur óskað eftir lóð undir verslunarmiðstöð gegnt Mjólkurstöðinni á Höfn, þar sem keyrt er inn í bæinn.
Á fundi bæjarráðs Hornafjarðar á fimmtudag var erindi Skúla tekið fyrir og í fundargerð fundarins er tekið fram að bæjarráð sé jákvætt fyrir erindinu.
Þá var starfsmanni falið að undirbúa aðalskipulagsbreytingu og gerð deiliskipulags vegna verslunar- og þjónustusvæðis, að því er segir í fundargerð.
Vantar verslunarhúsnæði á Höfn
Skúli stendur að byggingu á 6.000 fermetra og 120 herbergja hóteli á Reynivöllum í Suðursveit við Jökulsárlón og fer reglulega á Höfn.
„Það er vöntun á verslunarhúsnæði þarna. Það er gríðarlegur straumur ferðamanna, allan ársins hring meira að segja. Þarna er mjög mikið að gera í verslun en það vantar betri aðstöðu,“ segir Skúli í samtali við mbl.is.
Í verslunarmiðstöðinni yrði ein stór matvöruverslun, svokölluð akkerisverslun. Ásamt henni yrðu fleiri þjónustubil fyrir smærri verslanir eins og apótek og áfengisverslun eða álíka, að sögn Skúla.
Hann segir ekki tímabært að segja til um mögulegan kostnað við byggingu verslunarmiðstöðvarinnar, sem er á hönnunarstigi.
Spurður hvort til standi að opna Subway í verslunarmiðstöðinni segir Skúli ekki svo vera.
Heimild: Mbl.is