Nýtt veiðihús verður tekið í gagnið við Skógá í byrjun ágúst. 147 fermetra einingahús var flutt á staðinn og hafa framkvæmdir við að koma því í gagnið staðið yfir síðustu daga. Tengingar á lögnum og fráveitu ásamt byggingu á pöllum og aðstöðu stendur nú sem hæst og er þar í gangi dæmigert íslenskt kapphlaup í framkvæmdum við að standa við dagsetningar.
Ásgeir Arnar Ásmundsson er leigutaki Skógár og er mættur til leiks í annað sinn í sögu laxveiða í Skógá. Hann kom ánni á kortið sem álitlegum veiðikosti fyrr á öldinni. Eldgos og önnur óáran leiddu til þess að Skógá varð laxlaus á ný enda hefur veiðin þar byggst fyrst og fremst á seiðasleppingum á laxi.
Ásgeir segir nýjan veruleika blasa við. „Heimtur hafa minnkað í seiðasleppingum og í dag eru heimturnar víða komnar niður í eitt prósent. Þá er orðið mjög dýrt að byggja upp og tryggja mikla veiði. Hér í Skógá stefnum við að því að vera með á sem getur gefið hundrað laxa á stöng yfir tímabilið. Í okkar tilviki er það sumarveiði upp á fjögur hundruð fiska.
Tímabilið okkar er styttra en gengur og gerist eða um sjötíu dagar. Við opnum ekki fyrr en 20. júlí og veiðum fram í október.“ Ásgeir var staddur við nýja veiðihúsið með hamar í hönd og grafa var að mæta á svæðið og í mörg horn að líta.
Síðustu ár hefur Skógá gjarnan verið dagsveiðiá, þannig að menn hafa mætt að morgni og heim að kvöldi nema hreinlega tjalda eða bóka hótel sem er nánast ógerningur á Íslandi þegar fyrirvarinn er stuttur.
Nú hins vegar er í boði fyrir veiðimenn veiðihús með fjórum svefnherbergjum sem hvert og eitt er með sér baðherbergi. Stofa, eldhús, þvottahús og vöðlugeymsla halda utan um veiðimenn sem sækja heim Skógá.
Pallasmíði stendur yfir og þar verður heitur pottur, grill og fleira sem þykir nauðsynlegt í laxveiði þar sem sjálfsmennska ræður ríkjum. Rafmagnshleðslustöð verður í boði ef einhver vill fara á slíkum farskjóta í veiði.
Enn hefur ekki verið bókaður lax í Skóga en hefðbundið er að þeir fyrstu fari að láta sjá sig á þessum tíma. Í fyrra var hlutfall hænga sem veiddist í ánni, yfirgnæfandi. Búast menn við að hrygnurnar mæti í sumar og þá gjarnan sem tveggja ára lax.
Kvóti á stöng er þrír laxar en Ásgeir segir stefnt að því að minnka hann á næsta ári niður í tvo. „Það er bara orðið meira í tísku að birta af sér myndir eða vídeó að sleppa fiski og þeim fer fækkandi veiðimönnunum sem vilja taka með sér mikið af fiski. Umræðan síðustu árin hefur breytt þessu andrúmslofti,“ upplýsti Ásgeir í samtali við Sporðaköst.
Það er ljóst að þeir tímar þar sem Skógá var með aflahæstu ánum á landinu eru ekki í augnsýn aftur. Nú er markmiðið að byggja upp laxveiðiá sem gefur um fjögur hundruð laxa síðsumars og fram á haustið.
Mest var veiðin í Skógá um 1.600 laxar sumarið 2008 og sá tími er tæpast að koma aftur en aukist heimtur getur ávinningurinn verið fljótur að skila sér. Bleikjuveiðin sveiflast mikið í Skógá en þar hafa komið ár sem gefa góða silungsveiði.
Heimild: Mbl.is