Enn er ekki lokið við uppfyllingu í sjónum við Súðavík. Þar ætlar Súðavíkurhreppur að útbúa lóð undir kalkþörungaverksmiðju. Áform eigenda Djúpkalks eru óbreytt en ljóst er að upphafi framkvæmda seinkar því jarðvegssigi þarf að vera lokið áður en farið verður að byggja verksmiðju.
Íslenska kalkþörungafélagið, sem rekur kalkþörungaverksmiðjuna á Bíldudal, áformar að reisa jafnstóra verksmiðju í Súðavík og kallar hana Djúpkalk. Verksmiðjan á að vera á uppfyllingu sem unnið er að.
Súðavíkurhreppur stendur fyrir þeirri framkvæmd og hafnargerð í samvinnu við Vegagerðina. Varnargarður hefur verið reistur og búið að dæla upp meginhluta þess efnis sem þarf í uppfyllinguna en þó vantar enn nokkra skipsfarma, að sögn Braga Þórs Thoroddsens sveitarstjóra.
Heimild: Mbl.is