Home Fréttir Í fréttum Friðlýsing húsa og mannvirkja færð undir forsætisráðuneytið

Friðlýsing húsa og mannvirkja færð undir forsætisráðuneytið

122
0

Minjastofnun Íslands og Þjóðminjasafn Íslands verða sameinuð í eina stofnun, Þjóðminjastofnun, en Þjóðminjasafnið verður ennþá til sem höfuðsafn. Verkefni laga um menningarminjar sem lúta að friðlýsingu húsa og mannvirkja, sem og afnám slíkrar friðlýsingar, færast til forsætisráðuneytisins. Þetta er lagt til í nýju lagafrumvarpi stýrihóps á vegum forsætisráðherra.

<>

Í tilkynningu frá ráðuneytinu segir að frumvarpið geri ráð fyrir að rekstrargjöld Minjastofnunar og Þjóðminjasafns lækki umtalsvert við sameininguna. Stýrihópurinn telji að allt að tíu prósent hagræðing geti náðst innan tíu ára með nýrri stofnun.

Stýrihópurinn var skipaður af Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra í nóvember síðastliðnum, um tveimur mánuðum eftir að ráðuneytið kynnti tillögu að breytingum á lögum um menningarminjar. Þær breytingar fólust meðal annars í því að ráðherra fengi heimild til þess að taka lönd og mannvirki eignarnámi og réttindi til að framkvæma friðlýsingu. Þá kom fram á vef ráðuneytisins að von væri á víðtækari endurskoðun þessara laga.

Áhugi Sigmundar Davíð á skipulagsmálum er vel þekktur en hann hefur meðal annars gagnrýnt fyrirhuguð rif gamalla húsa á lóð Menntaskólans í Reykjavík, friðlýst tónleikasalinn á skemmtistaðnum NASA við Austurvöll þar sem til stóð að reisa hótel og lagt til friðun hafnargarðsins við Austurbakka í Reykjavík þar sem umfangsmiklar byggingarframkvæmdir eiga að fara fram. Hafnargarðurinn var stuttu síðar friðlýstur af forsætisráðuneytinu en Sigrún Magnúsdóttir, umhverfisráðherra og þingflokksformaður Framsóknarflokksins, var settur forsætisráðherra í því máli.

Málefni verndar og friðlýsingar gamalla bygginga hafa að talsverðu leyti færst til forsætisráðuneytisins í valdatíð Sigmundar Davíðs. Minjastofnun var undir forræði menntamálaráðuneytisins en var fært undir forsætisráðuneytið fljótlega eftir að Sigmundur Davíð tók við ráðuneytinu árið 2013. Þá samþykkti Alþingi árið 2015 frumvarp sem felur í sér að ráðherrann getur ákveðið einhliða að breyta byggðum svæðum á Íslandi í sérstök verndarsvæði.

Í stýrihópnum sem stendur á bak við nýju tillögurnar sátu forstöðumaður Minjastofnunar Íslands, þjóðminjavörður, húsameistari ríkisins og Sigurður Örn Guðleifsson, settur skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu, sem var formaður hópsins.

Heimild: Vísir.is