Umhverfisstofnun segir að Orkusalan verði að leita frekari leiða til að meta sjónræn áhrif frá tveimur 160 metra vindmyllum sem til stendur að reisa við Lagarfossvirkjun. Ljósmyndir segi ekki nema hálfa söguna.
Orkusalan, dótturfélag RARIK, hyggst reisa tvær allt að 160 metra háar vindmyllur innan lóðar sinnar við Lagarfossvirkjun í Múlaþingi. Uppsett afl gæti orðið allt að 9,9 MW. Orkusalan segist vilja með framkvæmdinni öðlast reynslu og byggja upp þekkingu á rekstri vindmylla innan félagsins.
Skipulagsstofnun komst að þeirri niðurstöðu í lok síðasta árs að framkvæmdin þyrfti að fara í umhverfismat. Þar verða teknir fyrir sex umhverfisþættir; gróður, fuglalíf, landslag og ásýnd, hljóðvist, útivist og ferðamennska.
Leita þurfi frekari leiða til að meta sjónræn áhrif frá vindmyllum
Umhverfisstofnun segir í umsögn sinni við matsáætlun Orkusölunnar að áhrif á landslag og ásýnd vegi þungt við umhverfismat vindorkuvera. Þetta séu stór mannvirki sem verði sýnileg um langan veg.
Orkusalan ætlar að láta vinna sýnileikakort til að meta áhrif áhrif á ásýnd. Það verður gert með því að taka ljósmyndir vítt og breitt um Úthérað og líkan af vindmyllunum verður sett inn á þær myndir.
Umhverfisstofnun fagnar þessu og telur þetta jákvætt en tekur fram að þessi gögn segi ekki nema hálfa söguna. „Annars vegar er allt önnur upplifun fólks á að horfa á kort og mynd en að horfa á raunverulega vindmyllu á staðnum og hins vegar eru spaðar vindmyllu á hreyfingu þar sem kort og myndir segja lítið.“ Það þurfi því að leita frekari leiða til að meta og sýna sjónræn áhrif frá vindmyllunum.
Hugsanlega þarf að víkka beygjur
Umhverfisstofnun leggur áherslu á að Orkusalan fjalli um áhrif örplasts í umhverfismatinu. Bent er á að samkvæmt skýrslu Umhverfisstofnunar Noregs losi vindmyllur um 10 til 170 tonn af örplasti miðað við þær þúsund vindmyllur sem voru starfandi á því ári. Þá kemur fram í umsögninni að vindmyllur séu gríðarlega stór mannvirki. Líklega þurfi að flytja spaðana í heilu lagi sem valdi því að víkka þurfi beygjur á flutningaleiðinni.
Umhverfisstofnun segir líka mikilvægt að rannsaka ískast. Þótt litlar líkur séu á því að einhverjir slasist af ís/klaka sem falli niður frá vélarhúsi eða kastist frá spöðum geti afleiðingar verið miklar. Setja þurfi upp upplýsingaskilti fyrir ferðamenn og mæla út öryggisfjarlægðir. Í Noregi er fjarlægðin að jafnaði um 200 metrar en í vindorkuveri í Bjerkreim er fjarlægðin 300 metrar.
Umhverfisstofnun nefnir líka Dyrfjöll sem heimamenn kalla drottningu Úthéraðs og Stórurð, gamla skriðu sem féll ofan í Urðardal. Umhverfisstofnun segir að úr henni sé „mikilfenglegt útsýni, meðal annars á dyrnar í Dyrfjöllum sem er stórbrotin sjón.“
Áhrif vindmylla á fuglalíf er líka stór þáttur í umhverfismatinu en þau geta verið mismunandi eftir fuglategundum. Umhverfisstofnun bendir á að rannsókn sem gerð var á áhrif fuglalífs á norsku eyjunni Smølu sýndi að 464 fuglar drápust á árunum 2006 til 2016 við árekstur á þær 68 vindmyllur sem eru á eyjunni. Rjúpur voru meira en helmingur þeirra.
Heimild: Ruv.is