Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, segir um 60 fjárfestingarverkefni í undirbúningi í sveitarfélaginu. Vegna umfangsins muni það reynast mikil áskorun að manna stöður og finna húsnæði.
Uppbyggingin lýtur að mörgum sviðum innviða. Byggja á þúsundir íbúða, stækka Keflavíkurflugvöll, reisa græna iðngarða og byggja upp Njarðvíkurhöfn, svo nokkuð sé nefnt.
Kjartan Már segir verktaka sýna því áhuga að reisa vinnubúðir í sveitarfélaginu enda sé takmarkað framboð af húsnæði.
Gæti skilað milljörðum
Þá sýni fjárfestar því áhuga að reisa þúsundir íbúða á Ásbrú. Þar með talið vel á fjórða hundrað íbúðir á einum reit. Landið sé í eigu ríkisins og gæti sala á stærri reitum skilað ríkissjóði milljörðum króna.
Kjartan Már segir skort á sérhæfðu starfsfólki vegna uppbyggingarinnar. „Við þurfum að setja meira afl í iðnmenntun á svæðinu. Með alla þessa þenslu sem er í gangi núna er einsýnt að okkur vantar fleiri iðnaðarmenn og iðnmenntað fólk. bAllavega í byggingariðnaði: smiði, rafvirkja, málara, múrara, pípara – allar þessar greinar – og ég heyri það líka á fyrirtækjunum í kring að allir eru að leita að menntuðu fólki,“ segir hann.
Í Morgunblaðinu í dag má sjá hvernig endurgerð Njarðvíkurhöfn mun líta út sem og tæplega 30 þúsund fermetra tengibygging á flugvellinum.
Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.
Heimild: Mbl.is