Home Fréttir Í fréttum Stúdentagarðar á Ísafirði rísa hratt

Stúdentagarðar á Ísafirði rísa hratt

84
0
Það verða 20 einstaklingsíbúðir í húsinu sem er verið að klára. Fyrstu nemar flytja inn í september. RÚV – Jóhannes Jónsson

Nemar við Háskólasetur Vestfjarða fagna byggingu nýrra stúdentagarða sem rísa hratt um þessar mundir. Fyrri bygging þeirra verður tilbúin von bráðar og byrjað verður á seinna húsinu á næstu dögum.

<>

Fleiri og fleiri nemendur stunda nám í Háskólasetri Vestfjarða á Ísafirði. Húsnæðissjálfseignarstofnun ákvað að koma til móts við sívaxandi eftirspurn á húsnæði í bænum og byggja stúdentagarða. Þar rísa tvö hús með 20 íbúðum hvort. Fyrra húsið verður tekið í notkun í september, og síðara húsið í desember.

Við Háskólasetrið eru kenndar tvær námsbrautir á meistarastigi. Annars vegar sjávarbyggðafræði og hins vegar haf- og strandsvæðastjórnun. Um það bil fjörutíu nemendur dvelja á Ísafirði ár hvert og stunda nám við Háskólasetrið en margir ákveða svo að dvelja þar áfram. Almennt er mikill skortur á húsnæði í bænum og þá sérstaklega fyrir nemendur.

Carina Burroughs er nemi á öðru ári og segir ekki hafa verið auðvelt að finna húsnæði og það hafi tekið frekar langan tíma. „Þegar ég sótti fyrst um og leitaði að húsnæði fyrir tveimur árum var það mjög erfitt. Afar lítið var í boði. Margir nemar höfðu þegar tryggt sér húsnæði.“ Hún segir að þetta ár hafi nýnemar verið mjög margir og lítið um laust húsnæði. „Ég veit að eftir því sem nemum fjölgar verður æ erfiðara að finna húsnæði á viðráðanlegu verði sem er á færi stúdenta.“ Það tókst að lokum og hún er búin að búa á sama stað síðan en segir það breyta miklu fyrir nýnema að geta flutt inn einhvers staðar á fyrsta árinu til að geta byrjað nám.

Carina Burroughs

Fyrsta húsið, með tuttugu stúdíóíbúðum, er risið og á næstu dögum verður byrjað að byggja annað hús.

Kjartan Árnason, arkítekt, segir verið að fullklára innveggi og leggja lagnir og svo verði gengið frá og innrétt. Áætlunin gerir ráð fyrir að fyrsta fólkið geti flutt inn fyrsta september en allir í lok októbermánaðar.

Sigríður Ólöf Kristjánsdóttir

Sigríður Ólöf Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri Vestfjarðarstofu segir að stúdentagarðar séu góð byrjun í uppbyggingu bæjarins og rýmka vel til á leigumarkaðnum. Hún segir þó ljóst að það þurfi byggja meira á Ísafirði. „Ég held að það muni hjálpa til verulega til þess að hýsa allavega fyrri árs nema og síðan er fólk komið í samfélagið og getur útvegað sér húsnæði fyrir seinna árið“.

Heimild: Ruv.is