Óvíst er hvort Ölfusárbrúin á Selfossi hefur næga burðargetu til að á hana megi setja rör sem flytja ættu heitt vatn sem fannst við jarðboranir nýverið.
Borað var á dögunum eftir vatni á vesturbakka árinnar þar sem heitir Fossnes, sem er sunnan við söluskála og sláturhús þegar ekið er inn í bæinn. Jarðhitaleitin þar skilaði því sem vænst var; það er 85 gráðu heitu vatni og magnið er 30 lítrar á sekúndu. Þetta vatnsmagn ætti að duga 1.000 manna byggð, en vegna mikillar fólksfjölgunar í Árborg að undanförnu er hitaveitan í bænum komin að þolmörkum. Það kom vel í ljós í vetur þegar brunagaddur var á landinu um alllangt skeið.
Sigurður Þór Haraldsson, veitustjóri í Árborg, segir næst á dagskrá að beisla vatnsrennsli úr holunni og veita því til byggðar.
„Áskorunin er að koma lögnunum alla leið. Rör með því vatnsmagni sem fannst vega 5-6 tonn sem menn spyrja sig nú hvort brúin ráði við. Það eru sérfræðingar Vegagerðar að reikna út,“ segir Sigurður Þór.
Í þessu sambandi minnir hann á að Ölfusárbrúin hafi verið byggð fyrir bráðum 80 árum og komin á tíma. Því er kominn í fullan gang undirbúningur að smíði nýrrar brúar sem verður spölkorn ofan við Selfossbæ. Hugsanlegt er því að heitavatnslögn frá borholunni nýju verði sett þar, sem aftur myndi þá seinka því að meira vatn og ylur berist í bæ.
Heimild: Mbl.is