Home Í fréttum Niðurstöður útboða Vegagerðin: útboð á vetrarþjónustu

Vegagerðin: útboð á vetrarþjónustu

256
0
Frá Steingrímsfjarðarheiði.

Tilboð bárust í tvö útboð Vegagerðarinnar í vetrarþjónustu á Vestfjörðum og standa samningaviðræður yfir. Annars vegar barst eitt tilboð í vetrarþjónustu á leiðinni Bolungavík – Reykjanes og var það frá Steypustöð Ísafjarðar. Tilboð Steypustöðvarinnar var 190.969.440 kr. og var 2,7 mkr. undir kostaðaráætlun Vegagerðinnar.

<>

Boðið var út snjómokstur og hálkuvarnir með vörubifreið á leiðinni Reykjanes – Bolungarvík. Samningur sem gerður verður í framhaldi af útboðinu gildir í þrjú ár frá töku tilboðs með heimild um framlengingar til tveggja ára, tvö ár í senn. Akstur vörubifreiða á snjómokstursleiðum er áætlaður 43.500 km á ári.

Þá barst einnig eitt tilboð í vetrarþjónustu 2023-2026, Þröskuldar og Steingrímsfjarðarheiði og var það frá Gámaþjónusta Hólmavíkur ehf., Hólmavík. Tilboðið hljóðaði upp á 291.780.822 kr. og var tæpum 58 m.kr. yfir kostnaðaráætlun Vegagerðarinnar.

Líkt og í fyrra útboði gildir samningur sem gerður verður í framhaldi af útboðinu í þrjú ár frá töku tilboðs með heimild um framlengingar til tveggja ára, tvö ár í senn. Akstur vörubifreiða á snjómokstursleiðum er áætlaður 51.500 km á ári. Verklok eru í apríl 2026. Útboðið er auglýst á Evrópska efnahagssvæðinu.

Þá hefur verið auglýst útboð á Vetraþjónustu 2023-2026, Hólmavík – Drangsnes – Þambárvellir og voru tilboð opnuð í síðustu viku. Eins og í fyrri útboðum er verkið til þriggja ára og akstur vörubifreiða á snjómokstursleiðum er áætlaður 22.000 km á ári.

Tvö tilboð bárust í verkið. Ágúst Helgi Sigurðsson, Hólmavík bauð 119,6 m.kr. og Króni ehf., Hólmavík bauð 86,3 m.kr. Áætlaður verktakakostnaður Vegagerðarinnar er 97.372.500 kr.

Loks hefur verið auglýst eftir tilboðum í eftirlit og ráðgjöf á áfanga 2 á Vestfjarðarvegi (60) um Dynjandisheiði,- Eftirlit og ráðgjöf. Verkið felur í sér nýbyggingu Vestfjarðarvegar á um 12,6 km kafla.

Vegurinn er að mestu byggður í nýju vegsvæði en að hluta í núverandi vegsvæði. Verklok framkvæmdarinnar eru áætluð í 15. júlí 2024. Tilboðsfrestur er til 18. apríl. Útboðið er auglýst á Evrópska efnahagssvæðinu.

Heimild: BB.is