Ólíkir hagsmunir
Samkvæmt upplýsingum frá Kolfinnu Jóhannesdóttur, sveitarstjóra Borgarbyggðar, þá felast breytingarnar deiliskipulagsins í að mæta ólíkum hagsmunum; sjónarmiðum íbúa, verktaka sem vilja byggja sem hagstæðast á lóðinni og sveitarstjórnar sem vill koma lóðinni í nýtingu. Reynt hafi verið að koma til móts við alla. Þá sé byggingarmagni dreift um reitinn til að draga úr skuggaáhrifum, hæðum fækkað úr fimm í þrjár en turn sem átti að vera fimm hæðir verður dreginn saman og hækkaður í sjö hæðir. Lóðirnar eru tvær og á annarri þeirra er umfang fyrirhugaðs byggingarmassa dregið saman og hann lækkaður úr sex hæðum í fimm. Heildarfermetrafjöldi er sá sami. Leitast var eftir að draga úr skuggavarpi á byggð við Kjartans- og Kveldúlfsgötu og trjám verði plantað meðfram Borgarbraut og Kjartansgötu til að draga úr vindstyrk. Reynt var eftir fremsta megni að draga úr áhrifum á skerðingu útsýnis.
194 undirrituðu athugasemdir
Fimm athugsasemdir bárust vegna breytts deiluskipulags sem voru undirritaðar af 194 aðilum. 188 aðilar undirrituðu sameiginlega athugasemd. Undirritaðir telja að í stað þess að draga úr byggingarmagni hafi magnið verið aukið og að byggingarmagn gæti verið á skjön við aðalskipulag. Enn er óánægja með skuggavarp og vindhviður sem gætu myndast. Undirritaðir hafa einnig áhyggjur af því að byggingarnar samræmist ekki byggingarhefð í bænum, bílastæði séu of fá og að svæðið beri ekki jafn mikla umferð og gæti orðið. Að lokum telja undirritaðir að ekki hafi verið tekið tillit til athugasemda í kynningarferli fyrirliggjandi skipulags árin 2004-2005.
Vísar málinu til sveitastjórnar
Athugasemdirnar voru teknar fyrir á fundi umhverfis- skipulags og landbúnaðarnefndar þann 3. febrúar síðastliðinn. Nefndin telur byggingarmagn samræmast aðalalskipulag, segir vindálag verða skoðað til hlýtar sem og lóðarstærð. Nefndin telur nóg vera af bílastæðum og að götur beri aukna umferð. Tillit hafi verið tekið til skuggavarps með breytingum á deiliskipulagi. Nefndin segir jafnframt að tillit hafi verið tekið til athugsemda vegna skipulags árið 2007 og vísar endanlegri afgreiðslu til sveitarstjórnar.
Heimild: Rúv.is