Björt Ólafsdóttir, fyrrum umhverfis- og auðlindaráðherra og alþingismaður Bjartrar framtíðar, hefur hellt sér út í byggingariðnaðinn eftir að stjórnmálaferlinum lauk.
Hlutafjáraukning og spennandi uppbygging
Björt starfar í dag sem framkvæmdastjóri IÐU ehf., en fyrirtækið sinnir margskonar ráðgjöf á byggingageiranum auk þess að koma að fasteignaþróunarverkefnum. Segja má að umhverfismál eigi enn stað í hjarta Bjartar en fyrirtæki hennar leggur meðal annars áhersu á að minnka kolefnislosun í byggingariðnaðinum.
Björt greinir frá því í færslu á Facebook-síðu sinni að hún og samstarfsmenn hennar hjá IÐU hafi á dögunum gengið frá hlutfjáraukningu og fengið öfluga fjárfesta í lið með sér til að byggja framúrstefnulegt fjölbýlishús við Frakkastíg 1 í miðbænum. Auk eftirtektarverðrar hönnunar verður húsið reist eftir aðferðum hringrásarhagkerfisins.
Mikilvægt að breyta byggingargeiranum
„Mannvirkjageirinn er á heimsvísu ábyrgur fyrir um 40% losunar og það veltur mikið á að breyta því, eins og við vitum. Okkar hús mun skila 50% minni losun miðað við viðmiðunarhús. Eitt skref í því er að huga að byggingarefnunum og vera ekki sífellt að henda dýrmætum auðlindum, heldur upphanna og skapa nýtt.
Samhliða uppbyggingunni á Frakkastíg erum við í IÐU að vinna að einmitt því fyrir geirann í heild sinni og fengum fyrir það styrk úr ASKI Mannvirkjasjóði á dögunum,“ skrifar Björt.
Það er danska arkitektastofan Lendager með Arnhildi Pálmadóttur arkitekt í broddi fylkingar sem sér um hönnun hússins. Það er kallað Græni klettur og er tilvísun í Hvítverk á Vatnsnesi.
Heimild: Dv.is