Home Fréttir Í fréttum Telja að uppbygging á Eiðum myndi spilla vistkerfum

Telja að uppbygging á Eiðum myndi spilla vistkerfum

81
0
Húsnæði gamla alþýðuskólans á Eiðum. RÚV – Rúnar Snær Reynisson

Formaður Náttúruverndarsamtaka Austurlands telur að stór sumarhúsabyggð sem áformuð er við Eiðavatn eigi eftir að spilla lífríki.

<>

Hún telur óeðlilegt að engin náttúruverndarnefnd sé í Múlaþingi en heimastjórn samþykkti áformin án athugasemda.

Náttúruverndarsamtök Austurlands eru stórgáttuð á áformum um golfvöll og 160 sumarhúsalóðir á Eiðum og við Eiðavatn. Formaður samtakanna segir mikilvægt vistkerfi og útivistarsvæði almennings í hættu.

Eigendur Eiða hyggjast útbúa 160 sumarhúsalóðir á stóru svæði sem nær meðal annars að Eiðavatni og áform eru uppi um stóran golfvöll. Kristín Amalía Atladóttir, formaður náttúruverndarsamtaka Austurlands, segir samtökin stórgáttuð á þessum áformum á sama tíma og vistkerfi hrynji eitt af öðru.

„Við öllu þessu verður hróflað“
„Á þessu svæði er alveg gríðarlega dýrmætt vistkerfi fyrir utan einstaka náttúrufegurð. Þarna er fellisvæði gæsa, grágæsa sem eru eins og við vitum í vanda nú þegar. Þarna er mikið af mófugli, sumir hverjir sem eru í vanda og aðrir jafnvel á válista. Þarna eru tjarnir og vötn.

Þar er gríðarlega mikilvægt lífríki líka og svo fyrir utan trjágróðurinn sem er mikill þarna. Þarna er stór sjálfsprottinn birkiskógur. Við öllu þessu verður hróflað. Það þarf að leggja vegi þvers og kruss í gegnum þetta allt saman. Heimreiðar, bílastæði, grunna, leiðslur, lagnir. Svæðið er í dag skilgreint sem útivistar- og náttúruskoðunarsvæði fyrir almenning. En þarna lokast þetta með einkaeigu á landi,“ segir Kristín.

Náttúruvernd eigi ekki sinn eigin málsvara
Framkvæmdirnar þurfa að fara í umhverfismat en Kristín telur óeðlilegt að Múlaþing hafi samþykkt að breyta skipulagi svæðisins án athugasemda, líka heimastjórn Fljótsdalshéraðs sem eigi að sinna hlutverki náttúruverndarnefndar sem ekki er til hjá Múlaþingi.

„Ég held að þarna sé í raun búið að gera náttúruverndarnefndirnar óvirkar. Og þetta er einmitt mjög lýsandi; að sveitarstjórn skuli hleypa þessu í gegn athugasemdalaust og ekkert kemur frá náttúruverndarnefndunum sjálfum sem eins og ég segi er sama fólkið,“ segir Kristín Amalía Atladóttir, formaður Náttúruverndarsamtaka Austurlands.

Heimild: Ruv.is