Senda þurfti nemendur á miðstigi í Fossvogsskóla heim í morgun vegna leka frá þaki og inn í skólastofur. Að sögn samskiptastjóra Reykjavíkurborgar var lekinn það mikill að ekki var hægt að nota stofurnar.
„Börnin voru strax sett í miðrýmið og í kjölfarið var byrjað að þurrka upp, kalla á verktaka og slökkviliðið og annað. En svo náttúrulega sáum við fljótlega að það var ekki hægt að hafa skólastarf á sama tíma,“ segir Eva Bergþóra Guðbergsdóttir, samskiptastjóri Reykjavíkurborgar. Hún segir að bæði hafi verið hringt í foreldra og þeim sendur tölvupóstur þess efnis að sækja þyrfti börnin í skólann vegna stöðunnar.
Aðspurð um staðsetningu lekans segir Eva Bergþóra að það virðist hafa lekið fremst á þakinu við útveggina þar sem gluggarnir eru.
„Það er búið að vera svo mikið ólíkindatímabil í veðri. Bæði mikill snjór og mikill ís og svo kemur þarna asahlákan og stíflar niðurföllin og það hefur farið að leka í kjölfarið,“ segir hún.
Þetta sé þó að gerast út um alla borg þessa stundina, en það sem geri þetta sérstaklega bagalegt sé sú staðreynd að húsnæðið sé tiltölulega nýtt. Viðamiklar viðgerðir voru gerðar á húsnæðinu í fyrra eftir að mygla greindist víða í byggingum skólans.
„Skemmdirnar eru ekki verulegar, en þetta er mikið rask og vesen. Við erum að sjálfsögðu ótrúlega svekkt að svona skyldi fara. Það var vandað afskaplega vel til verka við viðgerðir og þetta var langt hönnunarferli og farið djúpt í þetta. Öll framkvæmdin var undir eftirliti hjá Eflu, bæði hönnunin og framkvæmdin,“ segir Eva Bergþóra.
„Það verður ítarlega farið yfir hvað gerðist, hvað hefði betur mátt fara og hvað er hægt að gera til að koma í veg fyrir að þetta komi fyrir aftur,“ bætir hún við.
Eva Bergþóra segir slökkviliðið farið af vettvangi, en hins vegar séu verktakar á vegum borgarinnar enn á vettvangi við störf.
„Við erum ekkert að vaða í vatni þannig að það var farið strax í það að hreinsa snjó og ís og vatn af þakinu. Það er hætt að leka núna og það er bara verið að vinna í þessu,“ segir hún.
Heimild: Frettabladid.is