Félagið Arctic Hydro hefur uppi hugmyndir um að reisa vindorkugarð vesta við Þorlákshöfn en þetta var kynnt fyrir bæjarstjórn Ölfuss í gær. Skírnir Sigurbjörnsson, framkvæmdastjóri Arctic Hydro, segir að áformin gangi út á að reisa garðinn á Hafnarsandi um 3-4 km. vestan við Þorlákshöfn.
„Við horfum til svæðis sem er upp undir fjórir ferkílómetrar,“ sagði Skírnir í viðtali við Morgunblaðið. „Við teljum að mögulegt sé að reisa á því vindmyllur sem framleiða allt að 60 megavött. Til þess þyrfti 20 stórar þriggja megavatta vindmyllur eða fleiri aflminni.“
Ef reistar verða svo stórar vindmyllur þá verður vélarhús þeirra í um 80 m hæð yfir jörð og spaðarnir um 40 m langir, í efstu stöðu má því gera ráð fyrir að hæsti punktur sé í um 120 m hæð.
Einungis var um kynningarfund að ræða í gær en taki bæjarstjórn vel í hugmyndina mun fyrirtækið fara fram á formlegar viðræður um að reisa eitt mastur til rannsókna en slíkar rannsóknir þurfa að fara fram í a.m.k. eitt ár áður en ákvörðun er tekin um framhaldið.
„Ef við fáum jákvæð viðbrögð við umsókn um nýtingarleyfi og fáum að setja upp rannsóknarmastrið förum við að undirbúa fjármögnun. Félagið hefur sterkan eiginfjárhag og mun sjálft annast undirbúningsrannsóknir,“ sagði Skírnir í samtali við Morgunblaðið. „Ef mæligögnin reynast jákvæð verður farið að hanna og fjármagna.“
„Vindmyllurnar hafa engin áhrif á aðra landnýtingu á svæðinu svo lengi sem menn reisa ekki byggingar sem hafa áhrif á vindinn. Það er hægt að rækta upp landið, vera þar með vegi og jafnvel golfvöll.“ Til viðbótar nefndi Skírnir að hluti af afgjaldinu af vindmyllunum gæti runnið til landgræðslu í kringum vindmyllurnar.
Heimild: Hafnarfréttir.is