Ný Hamarshöll í Hveragerði verður byggð úr steypu og stáli á grunni þeirrar gömlu. Gamla Hamarshöllin var uppblásin, reist árið 2012, og fauk burt í óveðri í febrúar. Fyrsti áfangi verksins á að klárast fyrir árslok 2023.
Ný Hamarshöll í Hveragerði verður reist á grunni þeirrar sem fauk í óveðri fyrr á árinu. Alútboð fyrsta áfanga verksins verður auglýst á næstu dögum og opnað verður fyrir tilboð í lok janúar.
Markmið bæjarstjórnar Okkar Hveragerðis og Framsóknar er að fótboltasalur nýrrar hallar verði afhentur í september á næsta ári og fyrsti áfangi verksins fullbúinn í lok næsta árs.
Þriðju og fjórðu áfangar verksins felast svo í stækkun íþróttahússins og byggingu þjónustuhryggjar á milli fjölnotaaðstoðu og fótboltahallar. Hryggurinn kæmi þannig í stað dúkveggjarins sem rís fyrst.
Auk þess mun, í fjórða áfanga, rísa móttökusvæði í anddyri hallarinnar og líkamsræktaraðstaða á annarri hæð. Skrifstofur íþróttafélaga og annarra starfsmanna verða ekki byggðar fyrr en í fjórða áfanga.
Ekki liggur fyrir enn hvenær ráðist verður í byggingu þriðja og fjórða áfanga.
Heimild: Ruv.is