Vinnumálastofnun spáir því að hlutfall útlendinga af vinnuafli verði eftir tvö ár það sama og það var fyrir hrun bankanna. Forstjóri stofnunarinnar segir að ástandið nú minni að vissu marki á tímann í aðdraganda hrunsins. Í þenslunni fyrir hrun fjölgaði útlendingum jafnt og þétt á vinnumarkaði. 2005 störfuðu hér um 9 þúsund útlendingar eða rösk 5% af öllu vinnuafli.
Fjöldinn rúmlega tvöfaldaðist á næstu þremur árum og var kominn upp í rúm 18 þúsund 2008. Hlutfall útlendinga var þá komið í 9,9% af mannaflanum. Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar segir að erlendum starfsmönnum hafi fjölgað um 1100 á þessu ári. Nú sé það fyrst og fremst ferðaþjónustan og fyrirtæki tengd henni sem togi til sín erlent vinnuafl. Og fjölgunin eigi eftir að halda áfram.
„Já ég held að það sé alveg sýnilegt að minnsta kosti næstu tvö til þrjú árin. Ef atvinnuleysi fer minnkandi sem við erum að vonast til að þá verði ekki hægt að mæta mannaflsþörfinni á íslenskum vinnumarkaði nema með fjölgun útlendinga,“ segir Gissur.
Sama hlutfall og 2008
Eins og gefur að skilja fækkaði útlendingum í vinnu upp úr 2008 en fjöldinn fór þó ekki niður fyrir 14 þúsund. Frá því í fyrra hefur erlendum starfsmönnum fjölgað jafnt og þétt. Atvinnuleysið bitnaði harkalega á útlendingum sem fluttu ekki á brott. 2010 og 11 mældist t.d. 20% atvinnuleysi meðal Pólverja á sama tíma sem það var um 7% meðal Íslendinga. Eins og Gissur segir bendir allt til þess að útlendingum eigi eftir að fjölga einfaldlega vegna þess að íslenskt atvinnulíf kemst ekki af án þeirra. Á þessu ári fór fjöldi þeirra í 17.700 og þeir verða komnir yfir 19 þúsund eftir 2 ár. Þá verður hlutfall þeirra 9,9% af vinnuaflinu eða nákvæmlega það sama og 2008. Atvinnuleysið hefur nánast þurrkast út og verður á næstu árum 2,5 til 3%. En er ástandið farið að minna á uppganginn fyrir hrun?
„Að vissu marki. Mér finnast þessar fréttir og þau mál sem hafa verið að koma upp varðandi nánast misnotkun á erlendu vinnuafli beri keim af því sem gerðist 2005 til 2008. Oft er þetta kannski bæði af misskilningi og þekkingarleysi. En svo er inn á milli alveg einbeittur vilji manna til að brjóta reglur, lög og kjarasamninga. Og það finnst mér vera merki um skammtíma gróðahugsun sem fór ekki vel með þjóðina,“ segir Gissur Pétursson.
Heimild: Rúv.is