Home Fréttir Í fréttum 111 milljóna tap hjá 105 Miðborg

111 milljóna tap hjá 105 Miðborg

333
0
Teikning af Kirkjusandsreitnum. Ljósmynd: Aðsend mynd

Félag sem heldur utan um byggingu fasteigna á Kirkjusandi tapaði 111 milljónum á síðasta ári.

<>

105 Miðborg, félag í stýringu Íslandssjóða sem heldur utan um byggingu fasteigna á Kirkjusandi, tapaði 111 milljónum króna á síðasta ári samanborið við 276 milljóna hagnað árið áður.

Sala á fasteignum í byggingu nam 3,6 milljörðum samanborið við 4,1 milljarð árið áður. Söluhagnaður fasteigna var 69,9 milljónir í fyrra en 418 milljónir árið 2020. Annar rekstrarkostnaður jókst úr 10,7 milljónum í 164,5 milljónir á milli ára. Því var 94,6 milljóna rekstrartap í fyrra hjá 105 Miðborg samanborið við 407 milljóna rekstrarhagnaður árið 2020.

„Framkvæmdir við íbúðarhúsin voru umfangsmiklar á árinu. Sala íbúða gekk vel á seinni hluta ársins og stóðust söluáætlanir að teknu tilliti til seinkana sem hafa orðið á húsunum hjá verktaka,“ segir í skýrslu stjórnar í nýbirtum ársreikningi.

„Skrifstofuhús var steypt upp að fullu og farið var í útboð á utanhúsklæðningum undir lok árs. Unnið var að áætlunum og mismunandi útfærslum fyrir F reit allt árið en mismunandi markaðsaðstæður hafa hamlað framgangi þar um sinn,“ segir stjórnin en F reitur er sá sem stendur næst Kringlumýrabrautinni.

Eignir 105 Miðborgar voru bókfærðar á 6,5 milljarða í lok síðasta árs og eigið fé var 3,8 milljarðar. Lífeyrissjóður verzlunarmanna og Lífsverk eru stærstu hluthafar 105 Miðborgar með 11,5% hlut hvor um sig. Aðrir stórir hluthafar félagsins eru Brimgarðar, Sjóvá, Brú lífeyrissjóður, VÍS og Íslandsbanki.

Málshöfðun ÍAV „fráleit“

Í desember 2017 gerðu 105 Miðborg sem verkkaupi og ÍAV stýriverktakasamning um uppbyggingu þriggja bygginga á Kirkjusandi. 105 Miðborg sagði upp samningnum í febrúar 2021 vegna meintra vanefnda. Félögin hafa stefnt hvor öðru og krafist hátt í fjögurra milljarða króna vegna málsins.

„Stjórnendur Íslandssjóða telja málshöfðun ÍAV á hendur félaginu fráleita og að afar litlar líkur séu á að málhöfðunin muni leiða til greiðsluskyldu af hálfu félagsins,“ segir í ársreikningi Íslandssjóða.

Heimild: Vb.is