Home Fréttir Í fréttum Stefnir í slag um þjóðarhöllina

Stefnir í slag um þjóðarhöllina

203
0
Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Slagur virðist í uppsiglingu nokkurra sveitarfélaga um að byggja Þjóðarhöll fyrir inniíþróttir. Reykjavíkurborg hefur átt í viðræðum við stjórnvöld um byggingu hallarinnar en bæði Árborg og Mosfellsbær lýsa yfir áhuga á taka þátt í kapphlaupinu.

Handknattleiks- og körfuboltahreyfingin hafa kallað eftir svörum. Bæði karla- og kvennalandsliðin í handbolta léku síðustu landsleiki sína að Ásvöllum í Hafnarfirði vegna þess að ekki er hægt að spila í Laugardalshöllinni.

<>

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarflokkanna þriggja segir orðrétt: „Unnið verður áfram að uppbyggingu þjóðarhallar inniíþrótta og þjóðarleikvanga“. Dagur B Eggertsson borgarstjóri sagði í samtali við RÚV á Páskadag að borgin hefði tekið frá 2 milljarða króna í þetta verkefni.

Um næstu mánaðamót þurfi niðurstaða að liggja fyrir, að öðrum kosti færu þessir fjármunir í að byggja íþróttahús fyrir íþróttafélögin í Laugardal, Þrótt og Ármann. Með byggingu þjóðarhallar í Laugardalnum væri hægt að leysa húsnæðismál íþróttafélaganna tveggja.

Í gær samþykkti bæjarráð Mosfellsbæjar erindi bæjarfulltrúa Miðflokksins um að um að könnuð verði staðsetning fyrir þjóðarhöll – þjóðarleikvang í Mosfellsbæ fyrir handbolta og körfubolta. Erindinu var vísað til umhverfissviðs til umsagnar og óskað eftir mati á því hvort bæjarfélagið hafi lóðir eða landsvæði til ráðstöfunar fyrir allt að sex þúsund manna Þjóðarhöll fyrir inniíþróttir.

Í lok mars skrifaði formaður bæjarráðs Árborgar grein á Vísi og lýsti bæjarfélagið tilbúið í viðræður við ríkið um þjóðarhöll. Á Selfossi er búið að taka í notkun 6,500 fermetra fjölnota íþróttahús en fullbyggð íþróttamiðstöð verði 22 þúsund fermetrar að stærð. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson sagði í sjónvarpsfréttum í gær að þjóðarhöll verði að rísa.

Engin tillaga um þjóðarhöll hefur komið inná borð bæjarstjórnar Kópavogs. Gunnar Gylfason, fyrrverandi starfsmaður Knattspyrnusambands Íslands fer fyrir hópi sem vinnur að því að þróa hugmyndir og reisa nýjan þjóðarleikvang fyrir knattspyrnu á félagssvæði Breiðabliks.

Hann sagði í samtali við Morgunblaðið í síðasta mánuði að lífeyrissjóðir gætu komið að fjármögnun á verkefnum sem þessum. Sjóðirnir gætu lánað fjármagn í slík verkefni í 25-40 ár.

Heimild: Ruv.is