Lægsta tilboð í gerð nýrrar brúar yfir Hornafjarðarfljót ásamt fjármögnun verksins hljóðar upp á átta og hálfan milljarð króna og reyndist einum og hálfum milljarði króna yfir kostnaðaráætlun. Þetta er fyrsta útboðið á grundvelli nýlegra laga um einkafjármögnun í vegagerð.
Í fréttum Stöðvar 2 kom fram að með nýjum vegi þvert yfir Hornafjörð ásamt smíði fjögurra brúa sé ætlunin að stytta hringveginn um tólf kílómetra og miða áætlanir við að ljúka verkinu árið 2025. Vegamálastjóri segir útboðið marka tímamót sem það fyrsta á grundvelli laga um samvinnuverkefni þar sem verktaka er bæði ætlað að vinna verkið og fjármagna það að hluta.
Þegar tilboð voru opnuð í gær reyndist áætlaður verktakakostnaður nærri 7 milljarðar króna. Tvö tilboð bárust, það lægra frá Ístaki upp á tæpa 8,5 milljarða króna, eða 21,5 prósenti yfir kostnaðaráætlun. Hærra tilboðið áttu ÞG verktakar upp á nærri 9,8 milljarða króna. Þriðji verktakinn, sem komst í gegnum forval, sendi ekki inn tilboð. Fjárhæðir innifela framkvæmdakostnað og fjármagnskostnað verkefnisins, á framkvæmdatíma og til 25 ára.
En eru tilboðin vonbrigði?
„Ég ætla ekki að segja að þau séu vonbrigði. Ég er nú eiginlega ekki búin að hafa þessi tilboð undir höndum nema circa klukkutíma þannig að við eigum nú eftir að skoða þau betur. En ég skal alveg viðurkenna að við höfðum vonast eftir lægri tölum. En svo á maður eftir að sjá betur hvernig þetta er samansett,“ svarar Bergþóra Þorkelsdóttir vegamálastjóri.
Þegar tilboð eru svo hátt yfir kostnaðaráætlun vaknar sú spurning: Mun Vegagerðin hafna þeim og hugsanlega bjóða verkið aftur út síðar?
„Það er bara algerlega óskrifað blað hvernig verður farið með það,“ svarar Bergþóra.
Tvö önnur samvinnuverkefni eru einnig komin í ferli, vegur yfir Öxi og ný Ölfusárbrú.
„Við erum búin að halda kynningarfund fyrir Öxi og munum halda kynningarfund fyrir Ölfusárbrú núna á föstudaginn. Þar með eru þau verkefni farin af stað.“
Framundan séu svokallaðar samkeppnisviðræður, að sögn Bergþóru.
„Ef Guð lofar og allt gengur vel, þá verðum við í svipaðri stöðu með þessi verkefni í febrúar á næsta ári og við erum með Hornafjörð í dag,“ segir vegamálastjóri.
Heimild: Visir.is