“Bygging skógarbaðanna hefur gengið mjög vel en okkur tekst ekki að opna böðin á morgun, 11. febrúar 2022 eins og til stóð,” segir Eva Björk Halldórsdóttir hjá Skógarböðunum við Vaðlareit.
Hún segir að heimsfaraldur hafi því miður haft sín áhrif á framvindu verkefnisins. “Kórónuveiran hefur orsakað skort á ýmsum aðföngum, haft áhrif á lengd framleiðslu- og flutningstíma og þar af leiðandi hefur aðfangatími flestra aðfanga lengst til mikilla muna.”
Sigríður María Hammer sem ásamt eiginmanni sínum Finni Aðalbjörnssyni standa að uppbyggingu Skógarbaðanna segir að böðin hafi tekið ákveðnum breytingum frá því sem upphaflega var lagt upp með.
Það eigi ekki einungis við um byggingar og laugar, heldur hafa einnig verið gerðar aðrar breytingar sem voru til þess gerðar að fella byggingar betur inn í landslagið. Þá hafi verið gerðar breytingar til að hámarka útsýni yfir fjörðinn og Akureyri.
Stór áfangi þegar síðasta steypan var tekin í lok janúar
“Veðurfar hefur verið okkur nokkuð hliðholt, þó svo að einhverjir dagar hafi tafið lítillega, en stórum áfanga var náð í lok Janúar þegar síðasta steypan var tekin í laugunum. Hellulögn og frágangur á laugarsvæði og í kringum húsið hefur gengið vel miðað við árstíma.
Nú er verið að einangra og ganga frá byggingunni að utan og glugga – og hurðaísetning er langt komin. Innandyra er einnig mikill gangur og með hverri vikunni sem líður er hægt að sjá betur og betur að opnun nálgast óðfluga,” segir Sigríður María.
Búið er að tengja vatnslögnina og verður prufukeyrsla gerð á vatninu í næstu viku. Það mun taka um viku að opna alveg fyrir rennslið þar sem mikill þrýstingur er á lögninni og nauðsynlegt að það sé gert í nokkrum skrefum.
Spenna fyrir nýjum áfangastað
Eva Björk segir að framkvæmdin hafi hlotið mjög góðar viðtökur í samfélaginu og fyrir það séu þeir sem að standa þakklátir. “Við fórum af stað með sölu gjafabréfa fyrir jólin sem var tekið gríðarlega vel og margir sem skelltu þeim í jólapakkann í ár,” segir hún.
Þá segir hún fyrirspurnir frá innlendum sem erlendum fjölmiðlum og ferðaskrifstofum, sem bíða spennt eftir nýjum áfangastað, hafa verið talsvert margar undanfarið en einnig frá gestum sem hlakka mikið til að koma í heimsókn á ferðalagi sínu um landið.
“Þess má geta að við höfum nú þegar tekið við fjölda starfsumsókna og er virkilega gaman að sjá áhuga fólks á því að ganga til liðs við okkur með þetta nýja og spennandi verkefni,” segja þær Eva Björk og Sigríður María en á allra næstu vikum verður farið í að ráða starfsfólk að Skógarböðunum.
“Erfitt er að segja nákvæmlega til um það hvenær verður unnt að opna Skógarböðin og teljum við skynsamlegast að sú dagsetning verði gefin út þegar aðeins nær dregur.
Við erum þó sannfærð um að við opnun Skógarbaðanna munu gestir okkar njóta þeirra einstöku upplifunar sem þar býðst, meðal annars út frá stórbrotnu útsýni úr blöðunum, kyrrðinni og orku skógarins sem umlykur böðin.
Við erum vongóð um að opnun Skógarbaðanna verði von bráðar og hlökkum mikið til að geta tekið á móti og boðið gesti okkar velkomna,” segja þær.
Heimild: Vikubladid.is