Yfirvöld í Reykjavíkurborg hvetja fólk til að senda inn hugmyndir um endurgerð Laugardalslaugar.
Í tilkynningu frá borginni segir að söfnun hugmynda gangi vel. Verið sé að undirbúa hönnunarsamkeppni um endurgerð Laugardalslaugar og tengdra mannvirkja. Liður í því sé að safna hugmyndum frá almenningi.
Tekið er fram að leitast sé eftir nýjum og framsæknum hugmyndum.
Kominn tími á að endurnýja allt
Hægt sé að skila inn hugmyndum í hugmyndakassa í afgreiðslu Laugardalslaugar, í gegnum Betri Reykjavík og með tölvupósti á hugmynd@itr.is, fram til 28. febrúar.
Á annað hundrað hugmynda eru sagðar hafa borist og að þær megi sjá á skjá í Laugardalslaug.
Árni Jónsson, forstöðumaður Laugardalslaugar, segir að laugin sé löngu komin á tíma vegna viðhalds. Sjálft laugarkarið, lagnir og fleira. Kominn sé tími á að endurnýja allt.
Heimild: Mbl.is