Æfingar hófust í gær í nýja fjölnota íþróttahúsinu í Vetrarmýri í Garðabæ sem ber heitið Miðgarður.
Í tilkynningu frá Garðabæ segir að bæjarstjórn Garðabæjar opnaði húsið formlega til æfinga.
Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar og Björg Fenger, forseti bæjarstjórnar og formaður íþrótta- og tómstundaráðs Garðabæjar, fluttu ávörp.
Ungir knattspyrnuiðkendur úr yngstu knattspyrnuflokkum Stjörnunnar og Ungmennafélagi Álftaness mættu til æfinga um morguninn og gönguhópar úr félögum eldri borgara í Garðabæ og Álftanesi fengu að prófa göngu- og skokkbraut sem liggur um svalirnar í húsinu.
Ein stærsta framkvæmd sem Garðabær hefur ráðist í
Heildarkostnaður við verkið er um fjórir milljarðar og er ein stærsta framkvæmd sem Garðabær hefur ráðist í.
Garðabær samdi við Íslenska aðalverktaka (ÍAV) um alútboð á verkinu í lok árs 2018 en framkvæmdir hófust í byrjun árs 2019. Hönnuðir hússins eru ASK arkitektar og Verkís verkfræðistofa sá um verkfræðihönnun og ÍAV byggði húsið.
Garðabær efndi síðasta haust til nafnasamkeppni um nafn á nýja fjölnota íþróttahúsinu í Garðabæ sem var öllum opin og íbúar hvattir til að taka þátt í.
Nafn hússins, Miðgarður, var svo tilkynnt formlega í janúar á þessu ári.
„Samkvæmt goðafræðinni er Miðgarður miðja heimsins og sá staður þar sem mannfólkið býr. Það rímar vel við hugmyndir um fjölnota íþróttahúsið þar sem vonast er eftir lífi og fjöri á degi hverjum ásamt því að þar verður rými fyrir fjölbreytt viðfangsefni,“ segir í tilkynningunni.
Heimild: Mbl.is