Íbúar í Hvalfirði urðu varir við einhvers konar sprengingu eða skjálfta skömmu fyrir klukkan hálf sjö í kvöld. Lítill skjálfti mældist á mælum Veðurstofunnar en sprengingin var í raun á vegum byggingafyrirtækisins Borgarvirkis.
Sprengingin dularfulla er rædd í Facebook-hópi Íbúa í Kjósarhreppi en þar spyr einn notandi: „Fann einhver fyrir hljóðbylgju frá sprengingu eða einhverju öðru fyrir korteri?“ RÚV greindi fyrst frá.
Viðbrögðin hafa ekki látið standa á sér en rúmlega þrjátíu athugasemdir hafa verið skrifaðar við færslu íbúans. Margir virðast hafa orðið varir við dynkinn.
„Þetta virkaði frekar eins og verksmiðja hefði sprungið! Hávaði, hljóðbylgjur og húsið gekk í bylgjum,“ skrifar ein í athugasemd og aðrir taka í sama streng.
Bryndís Ýr Gísladóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir að í upphafi hafi staðan verið óljós. Skjálfti mældist á mælum Veðurstofunnar sem hafði samband við Almannavarnir í kjölfarið.
„Það kemur höggbylgja í loftið og svona“
Skömmu eftir klukkan tíu í kvöld fékk Veðurstofa þó ábendingu sem leysti málið.
„Við fengum tölvupóst núna rétt fyrir klukkan tíu frá fyrirtækinu Borgarvirki og þeir voru að sprengja á svæðinu,“ segir Bryndís Ýr hjá Veðurstofu Íslands.
Framkvæmdir eru á svæðinu og segir Bryndís algengt að slíkar sprengingar mælist á mælum Veðurstofunnar og nefnir sprengingar við uppbyggingu Landspítala sem dæmi.
Pétur Ingason hjá Borgarverki segir að framkvæmdir hafi staðið yfir á Grundartanga. Algengt sé að slíkar sprengingar heyrist og að ekki hafi verið brugðið út af vananum í þetta skipti.
„Þetta er bara spurning um það hljóðbært það er og annað, þannig að þetta er ekki neitt neitt. Það er mjög stillt yfir og þá heyrist bara meira. Það kemur höggbylgja í loftið og svona,“ segir Pétur í samtali við fréttastofu.
Heimild: Visir.is