Home Fréttir Í fréttum Dynjandisheiði: Kynntar tvær veglínur fyrir nýjan veg

Dynjandisheiði: Kynntar tvær veglínur fyrir nýjan veg

118
0

Vegagerðin hefur lagt fram til kynningar aðalskipulagsbreytingusem sýnir tvær veglínur fyrir nýjan veg yfir Dynjandisheiði innan Ísafjarðarbæjar.

<>

Skipulags- og mannvirkjanefnd Ísafjarðarbæjar leggur til að tillagan á vinnslustigi ásamt umhverfismati fari í kynningu.

Aðalskipulagsbreytingin nær yfir um 11 km langan kafla Vestfjarðarvegar (60) á Dynjandisheiði frá Dynjandisvogi að sveitarfélagsmörkum Ísafjarðarbæjar og Vesturbyggðar.

Um er að ræða breytingu á legu vegar nr. 60 yfir Dynjandisheiði og sex ný efnistökusvæði.

Afmörkunin rúmar veglínur D og F úr umhverfismati Vegagerðarinnar og efnistökusvæðin . Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvor veglínan verður fyrir valinu við endurbyggingu vegarins.

Í áliti Skipulagsstofnnar frá 3. júlí 2020 um þessa kosti segir:

„Önnur helstu umhverfisáhrif áfanga II felast í neikvæðum áhrifum á friðlýst svæði Dynjanda. Þar eru lagðar fram tvær veglínur (F og D) sem að mati Skipulagsstofnunar hafa báðar talsvert neikvæð áhrif á verndarsvæðið.

Áhrif valkostanna á þá umhverfisþætti sem lagt er mat á eru mismunandi og takast því á ólík sjónarmið varðandi það hvor kosturinn sé heppilegri innan verndarsvæðisins.

Veglína F liggur að miklu leyti um óraskað svæði og liggur ofar í landi en veglína D. Þá fylgja línu F umfangsmiklar skeringar og fyllingar. Veglína F hefur því neikvæðari áhrif á landslag innan verndarsvæðisins en veglína D. Veglína F hefur á móti þann kost að liggja fjær Dynjanda sjálfum.

Því kann hún að leiða til aukinnar friðsældar í næsta nágrenni fossins. Verði núverandi vegur fjarlægður og unnið vel að uppgræðslu birkis í núverandi vegstæði verður aukin samfella í birkikjarri.

Þá liggur veglína F einnig fjær minjaheild við Búðavík sem felur í sér tækifæri til að gera menningarminjum innan verndarsvæðisins betri skil.

Veglína D liggur að stórum hluta um núverandi veg og felur í sér mun minna rask á óröskuðu svæði en veglína F.

Hún felur því í sér töluvert minni breytingu á landslagi svæðisins frá núverandi ástandi en veglína F. Helsti ókostur línunnar er rask á minjaheild við Búðavík.

Skipulagsstofnun tekur ekki afstöðu til þess hvor kosturinn eigi að verða fyrir valinu en bendir á að Umhverfisstofnun telur að framkvæmdir samkvæmt valkosti F samræmist ekki verndarskilmálum friðlýsts svæðis við Dynjanda.“

Heimild: BB.is