Ítarlegar rauntímaupplýsingar úr nýrri Mannvirkjaskrá munu minnka framboðssveiflur á fasteignamarkaði.
Mannvirkjaskrá, nýr gagnagrunnur á vegum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS), mun taka við af íbúðatalningu Samtaka iðnaðarins og leiða til jafnari og skilvirkari uppbyggingar á húsnæðismarkaði, gangi allt eftir.
Gagnagrunnurinn mun halda utan um allt íbúðarhúsnæði í byggingu, auk byggingarsögu alls húsnæðis í landinu, á einum stað í rauntíma.
Auk þess verður þar að finna ýmsar upplýsingar um eiginleika, leyfi og úttektir mannvirkja. Áformað er að endanleg útgáfa Mannvirkjaskrár verði tilbúin um mitt næsta ár.
Hermann Jónasson forstjóri HMS, sagði í tilkynningu um málið í október að nýjungin yrði „bylting sem koma muni jafnvægi á markaðinn“.
Ingólfur Bender, hagfræðingur Samtaka iðnaðarins, segir Mannvirkjaskrá vera mjög mikilvæga fyrir iðnaðinn sem og almenning.
Með henni komi upplýsingaveita um stöðu íbúðamarkaðarins. Vonir standi til að skráin geti leyst af hólmi talningu sem samtökin sjálf hafi staðið fyrir síðan árið 2010, vegna skorts á áreiðanlegum opinberum gögnum.
Heildaryfirsýn sárlega vantað
„Þetta gæti hugsanlega tekið við af talningunni og mun klárlega bæta ákvörðunartöku í uppbyggingu íbúðarhúsnæðis,“ segir Ingólfur um Mannvirkjaskrána og á þar við ákvarðanir allra sem að þessum málum koma: framkvæmdaaðila, lánveitendur og hið opinbera.
„Með þessu er lagður grunnur að því að litið sé á þessi mál á upplýstan og heildstæðan hátt. Það hefur alveg vantað heildaryfirsýn.
Upplýsingar hefur skort um hvað er í uppbyggingu á hverjum tíma, sem hefur gert það erfiðara að gera áætlanir um íbúðauppbyggingu.
Samtökin brugðist við þessum vanda á sínum tíma með því að byrja sjálf að telja. Sú talning var hinsvegar hugsuð sem lausn til bráðabirgða eða þar til búið væri að bæta opinber gögn.
Sömuleiðis stendur til að gera áætlanir sveitarfélaga rafrænt aðgengilegar á næstunni, sem mun bæta yfirsýn yfir málaflokkinn enn meira. „Við munum því fá hvort tveggja, talninguna og áætlunina, hvað er verið að byggja og hvað er áætlað til lengri tíma.“
Mun ítarlegri upplýsingar
Talning samtakanna fer aðeins fram tvisvar á ári, og nær yfir stærstu byggingakjarnana, höfuðborgarsvæðið og næsta nágrenni þess auk Norðurlands, ólíkt Mannvirkjaskrá sem eins og áður sagði mun innihalda rauntímaupplýsingar um allar byggingar landsins.
Byggingarsaga hvers húss verður einnig aðgengileg öllum, sem muni auka öryggi í húsnæðisviðskiptum. „Þetta verða mun ítarlegri upplýsingar um ekki bara uppbygginguna, heldur þær íbúðir sem fyrir eru.
Tilvonandi kaupandi mun þá geta flett upp viðkomandi fasteign og þar sér hann upplýsingar um alla þætti byggingarinnar ásamt endurbótum, viðgerðum og slíku.“
Heimild: Vb.is