Lóðin var nýlega seld og er í fjármögnunarferli, en 114 milljóna krafa með veði í henni er í vanskilum.
Orkuveita Reykjavíkur og fjármögnunarfyrirtækið A Faktoring hafa farið fram á nauðungarsölu á lóðinni að Kleppsmýrarvegi 6 vegna 114 milljóna króna kröfu sem er í vanskilum.
Samkvæmt skipulagi er heimilt að reisa á lóðinni, sem er 2.540 fermetrar, 51 íbúð og má heildarbyggingamagn vera allt að 7.830 fermetrar. Um síðustu mánaðamót var lóðin auglýst til sölu á fasteignasíðum landsins og hefur hún verið seld með fyrirvara um fjármögnun.
Lóðin var upphaflega í eigu Vogabyggðar en í byrjun árs 2018 komst lóðin í eigu Hlíðarsmára Holding – það félag var úrskurðað gjaldþrota í ár og fékkst ekkert upp í 185 milljóna króna kröfur – og þaðan í eigu Fiðluhúss ehf. Síðastnefnda félagið afsalaði eigninni til KMV6 ehf., það félag er í eigu Ásgeirs Kolbeinssonar, í febrúar á þessu ári.
Í febrúar á þessu ári lánaði A Faktoring félaginu 103 milljónir, sem komu inn á fimmta veðrétt en upphaflegur höfuðstóll áhvílandi lána var 488 milljónir, sem báru 12% fasta vexti og greiðast áttu til baka í lok júní. Sturla Sighvatsson ritar undir bréfið sem ábyrgðarmaður.
Heimild: Vb.is