Home Fréttir Í fréttum Flugvöllum seinkar og sá þriðji líklega styttur

Flugvöllum seinkar og sá þriðji líklega styttur

157
0
Teikning af fyrirhugaðri flugstöð í Nuuk. KALAALLIT AIRPORTS

Bakslag er komið í flugvallaframkvæmdirnar á Grænlandi, stærstu innviðauppbyggingu í sögu landsins. Tilkynnt hefur verið um ársseinkun á völlunum í Nuuk og Ilulissat á sama tíma og horfur eru á að þriðji flugvöllurinn, í Qaqortoq, verði minnkaður í sparnaðarskyni.

<>

Flugvallafélag grænlensku landsstjórnarinnar, Kalaallit Airports, tilkynnti í vikunni að opnun nýrrar 2.200 metra flugbrautar í Nuuk myndi frestast til ársins 2024, en áður var búið að skýra frá samsvarandi seinkun í Ilulissat.

Til stóð að flugvellirnir yrðu tilbúnir árið 2023, sem og nýr 1.500 metra flugvöllur í Qaqortoq, en þar hafa framkvæmdir enn ekki hafist.

Opnun nýs flugvallar í Nuuk frestast um eitt ár, til ársins 2024, miðað við nýjustu tilkynningu grænlenskra flugvallayfirvalda.
KALAALLIT AIRPORTS

Í fréttatilkynningu er seinkunin einkum rakin til afleiðinga covid-19 faraldursins. Einnig hafi umfang verksins aukist með nýjum kröfum um búnað og aðstöðu, eins og um miðlínuljós í flugbraut og aðflugsljós. Þá hefur flugvallafélagið neyðst til að slá viðbótarlán upp á átján milljarða íslenskra króna til að mæta umframkostnaði.

Flugvellirnir þrír. Framkvæmdir eru hafnar í Nuuk og Ilulissat en óvissa er um Qaqortoq.
STÖÐ 2/GOOGLE EARTH.

Í vikunni var einnig birt skýrsla sem stjórnvöld létu gera um valkosti til að draga úr kostnaði við nýjan flugvöll í Qaqortoq, stærsta bæ Suður-Grænlands.

Búið er að bjóða verkið út tvisvar en í bæði skiptin reyndust tilboð nærri tvöfalt hærri en sá fjórtán milljarða króna fjárhagsrammi sem grænlensk stjórnvöld höfðu markað verkefninu.

Í skýrslunni eru bornir saman möguleikar á að stytta brautina úr 1.500 metrum niður í 1.199 metra, 1.000 metra eða jafnvel 799 metra, samtímis því að minnka flugstöðina.

Qaqortoq-flugvöllur var upphaflega hannaður með nægilega langri flugbraut fyrir smærri farþegaþotur eins og Airbus A220. Núna stefnir í að flugbrautin verði höfð styttri.
KALAALLIT AIRPORTS

Fyrir Icelandair skiptir niðurstaðan máli upp á það hvaða flugvélartegundir verður hægt að nota í Grænlandsflugi félagsins.

Þannig þurfa Bombardier Q200-vélarnar 1.000 metra braut meðan Q400-vélarnar þurfa 1.300 -1.400 metra braut. Í skýrslunni er þó bent á Q400-vélar Icelandair geti með takmörkuðu burðarþoli notað 1.200 metra braut.

Boeing 737 max-þoturnar gætu síðan notað brautirnar í Nuuk og Ilulissat með 2.200 metra lengd.

Qaqortoq-flugvöllur var upphaflega hannaður með nægilega langri flugbraut fyrir smærri farþegaþotur eins og Airbus A220. Núna stefnir í að flugbrautin verði höfð styttri.
KALAALLIT AIRPORTS

Samgönguráðherrann Naaja Nathanielsen segir í viðtali við Sermitsiaq að sér sýnist að 1.199 metra löng braut geti verið góður valkostur í Qaqortoq, þá með möguleika á lengingu í framtíðinni.

Hún muni þó freista þess að ná breiðri samstöðu um málið á þjóðþinginu.

Lagabreytingu þarf til þar sem 1.500 metra braut í Qaqortoq hafði verið áskilin í lögum um flugvallaframkvæmdirnar.

Heimild: Visir.is