Frá og með 15. september sameinast Ríkiseignir og Framkvæmdasýsla ríkisins (FSR) undir heitinu Framkvæmdasýslan – Ríkiseignir.
Ákvörðunin um sameininguna byggist á niðurstöðum vinnu ráðuneytis og beggja stofnana, sem staðið hefur frá síðastliðnu hausti.
Með sameiningunni fæst mikil samlegð þar sem húsnæðis- og aðstöðumál ríkisins verða á einni hendi, hvort sem um er að ræða framkvæmda- eða leiguverkefni.
Fasteignasafn stofnunarinnar er hið stærsta á landinu en það telur um 530 þúsund fermetra húsnæðis í um 380 fasteignum víðsvegar um landið.
Mun sameiningin skila bættri áætlanagerð og stýringu eignasafnsins, sem ætlað er að leiða til aukinnar skilvirkni, betri þjónustu og þar með fjárhagslegs ávinnings.
Fasteignirnar sem falla undir sameinaða stofnun hýsa m.a. framhaldsskóla, heilbrigðisstofnanir, söfn, lögreglustöðvar og hefðbundið skrifstofuhúsnæði.
Jafnframt munu um 300 jarðir í ríkiseigu heyra undir stofnunina. Þá mun stofnunin gegna hlutverki miðlægs leigutaka húsnæðis fyrir hönd ríkisins.
Á næstunni verður unnið að samþættingu stofnananna hvað varðar mótun nýs skipulags og stefnumótunar, í nánu samstarfi við ráðuneytið.
Þær eignir ríkisins sem ekki heyra undir stofnunina eru fasteignir Háskóla Íslands og Landspítala.
Fyrr á árinu var stofnað félag um rekstur fasteigna HÍ, sem stýrir um 100 þúsund fermetrum og fyrir liggja áform um miðlægan rekstur fasteignasafns Landspítalans sem telur um 160 þúsund fermetra.
Heimild: Stjórnaráðið