Willum Þór Þórsson, þingmaður Framsóknarflokksins og formaður fjárlaganefndar, segir stjórnmálamenn bera mikla ábyrgð á því álagi sem skapast hefur á Landspítalanum og að það tengist ekki síst þeim seinagangi sem einkenndi ákvörðun um að hefja uppbyggingu nýs Landspítala við Hringbraut.
Þetta kemur fram í viðtali við hann í Dagmálum sem helguð eru umfjöllun um heilbrigðismál í aðdraganda alþingiskosninga sem fram fara í september næstkomandi.
Ásamt honum eru gestir þáttarins þær Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og Hann Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar.
Aðeins hluti starfseminnar í nýjum spítala
Samkvæmt núverandi áætlunum er gert ráð fyrir að kostnaður við byggingu nýs Landspítala verði 79,1 milljarður króna og hafa áætlanir varðandi verkefnið hækkað verulega á síðustu árum.
Þrátt fyrir hinn mikla kostnað er ekki gert ráð fyrir nema 210 legurýmum í nýbyggingunni og 23 gjörgæslurýmum en á Landspítalanum í heild eru rýmin 638 samkvæmt nýlegum tölum sem heilbrigðisráðuneytið tók saman.
Því er ljóst að mikill minnihluti þjónustu við sjúklinga mun færast í hina nýju risabyggingu við Hringbraut.
Því vakna spurningar um hvort ekki styttist í að taka þurfi ákvörðun um að verja öðrum 80 milljörðum í frekari uppbyggingu við nýjan Landspítala.
Í umræðu um þetta atriði bendir Hanna Katrín á að farsælast væri að beina nýju fjármagni til uppbyggingar annarsstaðar en við Hringbraut.
„Þetta hefur oft verið sagt að það sé handan við hornið að þurfa að taka slíkar ákvarðanir, enda var pólitíkin mjög lengi að taka ákvörðun um það hvar á að staðsetja hann og byggja upp og þetta er mjög flókin tæknileg framkvæmd að byggja svona spítala. Við erum engir sérfræðingar í því.
Þetta er sennilega tæknilega flóknasta framkvæmd sem við höfum farið í og mun kosta tugi milljarða.“
Var hann þá spurður að því hvort hann teldi að 80 milljarða markið muni standast segir Willum ekki líkur til þess.
„Nei ég held að þetta fari nú fram úr því. Ég held að það stefni nú þegar í það.“
Þáttinn um heilbrigðismál má nálgast hér
Heimild: Mbl.is