Fasteignaverkefni Kaldalóns í Vogabyggð og helmingshlutur félagsins í Steinsteypunni voru færð upp um 775 milljónir.
Fasteignafélagið Kaldalón skilaði 699 milljóna króna hagnaði á fyrri helmingi ársins, samanborið við 226 milljóna hagnað á sama tíma í fyrra. Arðsemi eigin fjár á ársgrunni 32,4%.
Afkoman skýrist einkum af 775 milljóna króna jákvæðum gangvirðisbreytingum á fasteignaverkefni Kaldalóns í Vogabyggð og helmingshlut félagsins í Steinsteypunni. Þetta kemur fram í árshlutareikningi félagsins.
Rekstrargjöld námu 92,6 milljónum og hreinar fjármagnstekjur voru 49,8 milljónir á fyrri helmingi ársins.
Eignir félagsins námu tæplega 7 milljörðum, eigið fé var um 5,3 milljarðar og skuldir 1,7 milljarðar í lok júní. Eiginfjárhlutfall Kaldalóns var því 76%. Fram kemur þó er að uppgjörið taki ekki tillit til nýlegra tilkynntra viðskipta og hlutafjáraukningar.
Bókfært verð dótturfélagsins U 14-20 ehf., sem heldur utan um fasteignaverkefni í Vogabyggð, var fært upp um 509 milljónir króna á frá síðustu áramótum og nemur nú 1.069 milljónum. Þó segir að tekin var varúðarfærsla miðað við vænt verðmæti sölu fasteignaverkefnisins að fjárhæð 414 milljónum.
Kaldalón tilkynnti í maí um sölu á fasteignaverkefninu til Reir ehf. en fram kom að söluandvirði í viðskiptunum að frádregnum skuldum sé um 2.760 milljónir.
Helmingshlutur Kaldalóns í Steinsteypunni var einnig færður upp um 267 milljónir og er nú metinn á 602 milljónir króna í árshlutareikningnum. Kaldalón tilkynnti á föstudaginn að eignarhluturinn í Steinsteypunni hafi verið settur í söluferli.
Verðmatið á Steinsteypunni er sagt byggja á sjóðsstreymisverðmati, framkvæmt af þriðja aðila núna í ágúst. Bókfærða verðið miði við lægri mörk verðmatsins og tekin er þriðjungs varúðarfærsla af því.
„Uppgjörið markar tímamót í sögu Kaldalóns. Miklar breytingar hafa orðið á rekstri félagsins eftir að þessu uppgjörstímabili lauk. Við höfum keypt tekjuberandi eignir, selt þróunareignir, aukið hlutafé umtalsvert og undirritað ráðgjafasamning við Arion banka. Uppgjörið markar því lokapunkt gamla Kaldalóns en sýnir að sama skapi að ný vegferð okkar byggir á traustum grunni. Við horfum full tilhlökkunar fram á veginn,“ er haft eftir Jóni Þór Gunnarssyni, forstjóra Kaldalóns í tilkynningu samhliða uppgjörinu.
Í uppgjörinu segir að áður fyrr var markaðsverð lóða mikilvægasta breytan í mati á virði eigna.
Nú sé búið að selja vel talsvert af lóðum félagsins og einnig hefur verið gengið frá sölu á tveimur fasteignum félagsins við Urriðaholtsstræti 22 og 26.
Kaldalón hefur nýlega fest kaup á fasteignum sem hýsa hótelin Storm, Sand Hotel og Room with a View að hluta.
Jón Þór sagði í viðtali við Viðskiptablaðið í síðasta mánuði að félagið horfi til þess að hótelin vegi ekki meira en 25%-30% af eignasafni sínu til lengri tíma.
Jón Þór tók við af Jónasi Þór Þorvaldssyni sem lét af störfum í júní síðastliðnum.
Í árshlutareikningnum segir að „samhliða ráðningu nýs forstjóra félagsins hefur félagið gert samkomulag um útgáfu áskriftarréttinda að 180.000.000 hlutum að nafnvirði með gildistíma 5 ár frá útgáfu.
Áskriftargengið er 1,18 að viðbættri 7,5% árlegri hækkun.“ Hlutabréfagengi Kaldalóns stendur nú í 1,80 krónum á hlut.
Auk Jóns Þórs var Högni Hjálmtýr Kristjánsson ráðinn til Kaldalóns sem forstöðumaður eignaumsýslu og fjármála.
Stærsti hluthafi Kaldalóns er Strengur Holding ehf., sem Jón Ásgeir Jóhannesson fer fyrir, með 20% hlut. Þá hafa sjóðir í stýringu Stefnis, VÍS og Jonathan B. Rubini, ríkasta manns Alaska, nýlega náð samkomulagi um kaup á hlut í Kaldalón í formi nýs hlutafjár.
Sjóðir Stefnis eiga í dag um 15% hlut, Vís 8% hlut og Rubini 5% hlut samkvæmt fjárfestakynningu Kaldalóns.
Heimild: Vb.is