„Í ferðaþjónustu er lykilatriði að þykja vænt um fólk. Mikilvægt er að skapa jákvætt andrúmsloft meðal starfsfólks, sem skilar sér alltaf til gesta,“ segir Jóhann Guðni Reynisson á Blue Hotel Fagralundi í Reykholti í Biskupstungum.
Hótelið var opnað 15. júlí sl., aðeins 80 dögum frá því byrjað var að reisa og setja saman einingar svo úr varð 1.500 fermetra bygging.
Alls eru 40 herbergi á hótelinu, sem er í skógarlundi við Biskupstungnabraut og í miðju Gullna hringsins.
Gaman að spjalla við gesti
„Ég veit fátt skemmtilegra en að spjalla við gestina sem eru í fríi og hafa fært sig niður um gír í hraðferð tilverunnar,“ segir Jóhann Guðni.
„Íslendingar eru áberandi í hópi gesta hér og margir dvelja í nokkra daga.
Margir nýta sér að í 30 kílómetra radíus héðan frá Reykholti eru margir golfvellir; í Öndverðarnesi og Kiðjabergi í Grímsnesi, í Úthlíð, í Miðdal við Laugarvatn, á Geysi og á Flúðum.“
Eigendur hótelsins nýja eru þrenn hjón; Jóhann Guðni og Elínborg Birna Benediktsdóttir, Katrín Helgadóttir og Bjarni Kristján Þorvarðarson og í Bandaríkjunum eru Claudia og Ken Peterson maður hennar, sá er stóð að byggingu álversins á Grundartanga.
Samstilltur hópur
„Við Elínborg stöndum vaktina hér núna til að byrja með og höfum starfað við ferðaþjónustu í nokkur ár ásamt Bjarna og Katrínu; byggðum og leigjum út tólf sumarhús einmitt hér í Biskupstungum.
Við vildum róa áfram á sömu mið og fundum fína lóð í Reykholti sem var föl.
Gistiheimili sem þar var fyrir er í dag nýtt sem gestamóttaka og morgunverðarsalur nýja hótelsins, en framkvæmdir við byggingu þess hófust síðasta haust.
Þá voru sökklarnir steyptir og snemma í vor var byrjað að raða saman einingunum, sem fengnar eru frá Noregi,“ segir Jóhann Guðni og bætir við:
„Í stórri framkvæmd, eins og byggingu Blue Hótels Fagralundar, þurfti allt að ganga greitt fyrir sig.Þá er mikilvægast að hafa með sér gott fólk í samstilltum hópi – og svo borð fyrir báru svo hægt sé að bregðast skjótt við því sem er ófyrirséð.
Fyrstu gestirnir hér bókstaflega mættu iðnaðarmönnum í dyrunum svo kapallinn gekk upp.
Fjölskyldur og vinir unnu hér um helgar við að gera herbergin klár og skapa notalegan blæ en á öllum þeirra eru málverk sem Katrín Helgadóttir, einn eigenda hótelsins, málaði.
Allt þetta gefur hótelinu hlýlegt yfirbragð sem skiptir miklu svo gestum líði vel – en til þess er leikurinn gerður.“
Heimild: Mbl.is